Róbert Róbertsson fjármálastjóri Kaldvíkur segist vera í draumastarfinu og afar stoltur af vegferð félagsins sem stefnir að því að ná stöðugri 30.000 tonna framleiðslu á ári.
Frá því að ég tók við sem fjármálastjóri Kaldvíkur árið 2020 hafa verkefnin og áskoranirnar verið margar. Á þessum tíma höfum við keypt og sameinað laxeldisfélögin á Austfjörðum. Með sameiningunni urðu framleiðslusvæðin fyrir austan undir einum hatti sem tryggir mun betri nýtingu á eldissvæðunum og gerir okkur kleift að skipuleggja framleiðsluna út frá öryggi að því er varðar t.d. sjúkdómavarnir.
Félagið gekk í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu á síðasta ári. Endurfjármögnuðum við félagið með sambankaláni upp á 180 milljónir evra og fórum í hlutafjáraukningu upp á 75 milljónir evra. Það var svo nú í byrjun sumars sem við skráðum Kaldvík á First North-vaxtarmarkað Nasdaq. Með skráningunni öðlaðist félagið tvöfalda skráningu, en fyrir var Kaldvík skráð á EuroNext Growth-markaðinn í Ósló.
Félagið hefur unnið hörðum höndum að því að byggja upp innviði og auka gæði í framleiðslu með það að markmiði að ná upp stöðugri 30.000 tonna framleiðslu á ársgrundvelli. Ég er afar stoltur af vegferð félagsins og þeim kröfum sem við setjum á okkur sjálf í öllum þáttum framleiðslunnar.
Hins vegar er mikilvægt að kynna almenningi og innlendum fjárfestum enn betur atvinnugreinina. Umræðan gegn greininni hefur verið ansi óvægin og oft og tíðum einkennst af fullyrðingum sem eiga ekki við rök að styðjast.
Ég held til dæmis að það viti ekki margir af þeirri staðreynd að við hjá Kaldvík höfum algjörlega verið laus við sleppingar, þá er engin laxalús fyrir austan, auk þess sem félagið er að meirihluta í eigu Íslendinga. En það er okkar hlutverk að koma þessum skilaboðum betur út til almennings.
Það var Lagarlífsráðstefnan sem haldin var í Hörpu fyrr í þessum mánuði. Þar var viðfangsefnið fiskeldisiðnaðurinn á Íslandi og ráðstefnan var góður vettvangur til að hitta aðra í greininni. Ráðstefnan hefur stækkað með hverju árinu og í ár voru yfir 700 gestir skráðir sem er á pari við Sjávarútvegsráðstefnuna. Það er ánægjulegt og sýnir kraftinn sem er í greininni og áhugann á henni.
Ég reyni að fylgjast með fréttum af iðnaðinum bæði hérlendis og erlendis. Eins reyni ég eftir fremsta megni að halda mér uppfræddum af helstu breytingum á skattalögum og alþjóðlegum reikningsskilareglum.
Þá hef ég lagt áherslu á að kynna mér nýjungar í tæknimálum og reynt að innleiða tækninýjungar í ferla félagsins. Við búum líka svo vel að í framkvæmdastjórn félagsins eru einstaklingar sem hafa mikla þekkingu og reynslu á sínu sviði og við erum dugleg að miðla á milli okkar reynslu og þekkingu.
Þetta starf eða sambærilegt starf er í rauninni mitt draumastarf. Að starfa í grein sem er í miklum vexti og verður á næstu árum einn af burðarásum í útflutningsverðmætum Íslands er eiginlega ekki hægt að toppa.
Ég myndi sennilega bæta við mig gráðu í sjávarútvegsfræðum til að þétta þekkingu mína í þessu starfi. Annars væri tölvunarfræði sömuleiðis grein sem ég gæti haft áhuga á að læra.
Kostir – Dýnamísk atvinnugrein sem er í fjárfestingar- og uppbyggingarfasa. Áhugi fjárfesta er sífellt að aukast, ekki síst innlendra. Með auknum rannsóknum og rýningu á ferlum félagsins í eldinu erum við alltaf að ná betri og betri árangri. Við höfum góða sögu að segja og það er okkar hlutverk að koma henni á framfæri.
Gallar – Umræðan almennt um greinina hefur of mikið byggst á einhliða skilaboðum sem gefa ranga mynd af atvinnugreininni. Það er augljóst að þessi skakka umræða hefur litað hina pólitísku nálgun á atvinnugreinina, að minnsta kosti tímabundið.
Ég myndi vilja að Alþingi tæki fyrir frumvarp um lagareldi, sem var til umfjöllunar fyrr á þessu ári. Einnig er aðkallandi þörf á að stjórnvöld einfaldi og skýri umsóknarferla félaganna en í dag tekur hver leyfisumsókn mörg ár, jafnvel áratug.
Þegar fyrirsjáanleikinn er lítill er erfiðara fyrir félögin að gera áætlanir og fjárfesta. Margar skýrslur og tillögur hafa litið dagsins ljós þar sem skýrar tillögur eru að breytingum.