Gríðarleg tækifæri í nýju samningunum

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair. mbl.is/Eyþór

Icelandair kynnti nýverið að félagið hefði gert nýja samstarfssamninga við flugfélögin Emirates, TAP Air Portugal, Turkish Airlines, Air Greenland og Atlantic Airways. Auk þess var nýverið tilkynnt að Icelandair yrði fyrsta samstarfsflugfélag Southwest Airlines en Icelandair er nú þegar með samstarfssamninga við mörg flugfélög, meðal annars við JetBlue, Alaska, Finnair og SAS.

Bogi segir að félagið sjái gríðarleg tækifæri í nýju samningunum en eins og staðan er í dag komi 10% af tekjum Icelandair í gegnum samstarfsflugfélög.

„Þessir samstarfsaðilar munu styrkja okkar tengingar inn í Asíu og Mið-Austurlönd. Við sjáum líka færi til sóknar á norðurslóðum en við höfum einnig gert samstarfssamning við Air Greenland og Atlantic Airways í Færeyjum,“ segir Bogi. Hann segir jafnframt að samstarfið við Southwest Airlines gefi félaginu tækifæri til að styrkja leiðakerfið sitt í Bandaríkjunum, einkum á suðvesturströndinni.

Spurður hvort félagið hyggist hækka þjónustustig og bjóða upp á meiri lúxus í sinni þjónustu í ljósi samstarfssamningsins við Emirates, sem er þekkt fyrir mikinn lúxus, segir Bogi að það sé ekki á döfinni.

„Við erum að bjóða upp á stutta flugleggi innan Evrópu og erum nú þegar með mikil gæði í okkar þjónustu bæði á Saga Premium og Economy. Við hyggjumst ekki breyta því,“ segir Bogi.

Boeing 757-vélum fækkar í farþegaleiðakerfinu og árið 2027 verður síðasta árið með Boeing 757 í farþegaleiðakerfinu. Félagið kynnti árið 2022 að það ætlaði sér að innleiða Airbus-vélar í sinn flota. Bogi segir að innleiðingin muni gerast í skrefum. Spurður um kostnað samanborið við tekjuvæntingar af nýju vélunum segir Bogi að þótt einhver kostnaður sé fólginn í innleiðingunni séu tækifærin mun fleiri og stærri.

„Það er auðvitað þjálfunarkostnaður en við munum þó taka innleiðingarferlið í skrefum,“ segir Bogi. Hann segir að félagið muni taka inn eina nýja vél í flotann í ár og þrjár fyrir næsta sumar. Þá munu fjórar 757-vélar fara úr flotanum.

„Við munum halda áfram með Boeing 737 MAX-vélarnar í flotanum okkar. Það er mismunandi hvað við gerum við 757-vélarnar sem eru á leiðinni út úr flotanum, við munum ýmist leigja þær til annarra flugrekenda, selja þær eða varahluti úr þeim vélum sem munu hætta í rekstri,“ segir Bogi.

Hagnaður Icelandair eftir skatta nam 9,5 milljörðum króna á þriðja fjórðungi þessa árs og dróst saman milli ára. Félagið gerir ráð fyrir afkomubata á milli ára á fjórða ársfjórðungi en það birti nýverið uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung. Tekjur lækkuðu lítillega milli ára og EBIT-afkoma félagsins lækkaði um fjórðung milli ára. EBIT-afkoman var 11,4 milljarðar króna. Einingakostnaður lækkaði um 2% milli ára en einingatekjur drógust saman að sama skapi. Afkomuspá Icelandair gerir ráð fyrir að rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta batni verulega á fjórða ársfjórðungi, meðal annars vegna hagræðingar í rekstri félagsins og lægra eldsneytisverðs. Þrátt fyrir bætta afkomu á fjórða ársfjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra gerir félagið ráð fyrir að EBIT verði neikvæð um 10-20 milljónir dollara fyrir árið í heild sinni.

Spurður hvað valdi því helst að félagið búist við svo miklum árangri af hagræðingaraðgerðunum segir Bogi hann vilji ekki einblína á árangurinn á fjórða ársfjórðungnum heldur á árangur félagsins til lengri tíma.

„Þriðji ársfjórðungur var verri en við gerðum ráð fyrir þegar árið hófst. Síðastliðinn vetur og fram á vor minnkaði eftirspurnin eftir ferðalögum til Íslands talsvert og það hafði áhrif á einingatekjurnar í sumar. Á síðasta ári lukum við hraðri uppbyggingu félagsins eftir covid og í framhaldi af því höfum við haft ráðrúm til að leggja meiri áherslu á skilvirkni í rekstrinum. Það endurspeglast ekki síst í mjög góðri stundvísi í sumar og lækkun einingakostnaðar í mjög krefjandi kostnaðarumhverfi. Við höfum sett af stað yfirgripsmikla umbreytingarvegferð,“ segir Bogi.

Hann lýsir því að í henni felist að fyrirtækið sé að velta við öllum steinum í rekstrinum og leita allra leiða til að hagræða og auka skilvirkni. Flugfélagið hefur sett á laggirnar umbreytingarskrifstofu og er Rakel Óttarsdóttir framkvæmdastjóri umbreytinga, sem og stafrænnar þróunar hjá félaginu, og stýrir hún skrifstofunni.

„Við stefnum á að þessi umbreytingarvinna muni skila okkur 70 milljónum dala á ársgrundvelli í lok árs 2026 og síðan meiru eftir það,“ segir Bogi.

Tekjur Icelandair koma að mestum hluta frá farþegaleiðakerfinu en Bogi segir að það séu um 90% af tekjunum. Leiguflugið sé um 4% en það er sá rekstrarþáttur sem gekk einna best hjá Icelandair á þriðja ársfjórðungi en leigutekjur félagsins jukust talsvert á milli ára. Bogi segir það skýrast af því að félagið bætti við tveimur vélum í flotann. „Leiguflugstarfsemin hefur gengið vel í sumar og hefur verið aukning bæði í langtímaleigu og einnig í árstíðabundnu flugi fyrir ferðaskrifstofur, til dæmis heimsferðir sem við höfum flogið fyrir National Geographic,“ segir Bogi.

Ætla að einblína á reksturinn

Nú hefur gengi ykkar lækkað umtalsvert á undanförnum árum og hefur lækkað um 25% á einu ári, hvernig ætlið þið að bregðast við þeirri stöðu?

„Það er rétt að hlutabréfaverðið hefur lækkað. Eins og ég hef nefnt þá er höfuðáhersla hjá okkur núna að ná árangri í rekstrinum og bæta afkomuna. Við sjáum fram á að rekstrarafkoman batni talsvert á milli ára á fjórða ársfjórðungi og gerum ráð fyrir samskonar þróun á næsta ári og erum bjartsýn á framtíðarhorfur félagsins.“

Hann segir að fraktflugsstarfsemin hafi verið undir markmiðum í fyrra en gerðar hafi verið umfangsmiklar breytingar á þeim rekstri. Hann bætir við að reksturinn hafi verið miklu betri á þessu ári og er gert ráð fyrir EBIT-hagnaði fyrir árið í heild, en í fyrra var verulegt tap af rekstrinum. Hann lýsir því að jarðhræringarnar á Reykjanesi og ónákvæm fjölmiðlaumfjöllun um þær erlendis hafi líkt og gefur að skilja haft áhrif á félagið þar sem það hafi haft neikvæð áhrif á eftirspurn eftir Íslandi sem ferðamannalandi. Þá hafi samkeppnisstaða Íslands versnað vegna hækkandi kostnaðar hér á landi.

„Svo eru alltaf sveiflur í þessu, Ísland er t.d. í talsverðri samkeppni við Noreg um ferðamenn og norska krónan hefur verið veik sem gerir það ódýrara að ferðast þangað. Við brugðumst við minni eftirspurn eftir Íslandi með því að leggja meiri áherslu á markaðinn yfir hafið sem var nokkuð krefjandi í sumar vegna aukins framboðs. Þetta eru helstu skýringarnar á lakari afkomu en við gerðum ráð fyrir og ástæðan fyrir því að við tókum afkomuspá okkar úr sambandi í vor. Við sjáum mikil tækifæri fyrir viðskiptalíkan okkar til framtíðar. Við erum að sjá árangur af hagræðingaraðgerðum og framboð á helstu mörkuðum er að jafna sig og vaxa mun minna inn á næsta ár en milli 2023 og 2024. Við ætlum að nýta þessi tækifæri,“ segir Bogi.

Stefna á 8% EBIT-hlutfall

Bogi segir að ýmislegt sé á döfinni hjá fyrirtækinu á næstu vikum og eitt það helsta sé að fyrirtækið hyggst flytja höfuðstöðvar sínar frá Vatnsmýri úr gamla Loftleiðahúsinu yfir á Vellina í Hafnarfirði.

„Við erum á fleygiferð í flutningum og stefnum á að verða flutt inn fyrir jólin. Í þessum flutningum felst töluvert hagræði í okkar skrifstofustarfsemi. Við færumst nær Keflavíkurflugvelli og flestallir starfsmenn á höfuðborgarsvæðinu verða eftir flutninginn undir sama þaki. Við höfum hannað þetta húsnæði eftir nútímaþörfum og starfsfólk okkar er afar spennt,“ segir Bogi.

Spurður hvað verði um gömlu Loftleiðabygginguna vísar Bogi til þess að Reitir hafi keypt hana á sínum tíma.

„Þegar ákvörðun var tekin um flutningana til Hafnarfjarðar seldum við fasteignafélaginu Reitum húsnæðið í Vatnsmýrinni og höfum leigt af því síðan. Það er því í höndum þess að finna húsinu nýtt hlutverk eftir að við flytjum,“ segir Bogi. Spurður hvað sé helst fram undan hjá Icelandair segist Bogi sjá mikil tækifæri á markaðnum. „Það er mikil gerjun að eiga sér stað og við sjáum mikil tækifæri í að þróa áfram leiðakerfið okkar. Við erum að innleiða Airbus-vélarnar í skrefum, við erum á fleygiferð í umbreytingarvegferðinni okkar sem mun skila okkur í 8% EBIT-hlutfalli til lengri tíma. Við horfum því björtum augum til framtíðar,“ segir Bogi að lokum.

Viðtalið má lesa í heild sinni í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK