Fræðslufyritækið Akademias hefur tekið yfir rekstur fyrirtækisins Avia, sem jafnframt er fræðslufyrirtæki en með rætur í fluggeiranum.
Í tilkynningu segir að með þessu hafi Akademias styrkt stöðu sína sem leiðandi aðili á íslenskum markaði þegar kemur að þjónustu við fræðslumál vinnustaða. „Láttu okkur um fræðslumálin“ hefur verið eitt af leiðarljósum Akademias í þjónustu sinni en kaupin á Avia eru sögð styðja við það markmið.
Fram kemur að Avia hafi á undanförnum árum þróað fræðslukerfi sem hefur þá sérstöðu að vera bæði fræðslukerfi og samskiptakerfi, auk þess að geta gegnt hlutverki innri vefs.
Avia geti þannig ekki aðeins haldið utan um alla rafræna fræðslu, heldur einnig komið í stað Facebook Workplace, en eins og flestir vita þá verður sú þjónusta ekki í boði frá og með ágúst á næsta ári. Það sé því mikil hagkvæmni fólgin í því fyrir vinnustaði að taka Avia í notkun og um leið fækka aðeins í kerfisflórunni.
Þá geti Avia með einföldum hætti tengst öðrum kerfum, eins og mannauðskerfum, sem gerir auðveldi sjálfvirknivæðingu.
Avia var formlega stofnað árið 2021 en fyrirtækið þjónustar í dag um 40 vinnustaði og um 15.000 notendur í fjölbreyttum greinum.
„Með Avia fá viðskiptavinir Akademias alhliða þjónustu við rafræna fræðslu á einum stað: greiningar, ráðgjöf, stærsta rafræna fræðslusafn á Íslandi, framleiðslu á sértæku námsefni og fræðslukerfi. Það hefur orðið gríðarleg fjölgun á vinnustöðum þar sem rafræn fræðsla er í lykilhlutverki fræðslustarfsins. Stjórnendur gera sér grein fyrir því að vel þjálfað starfsfólk skapar aukin verðmæti og draga úr rekstraráhættu í síbreytilegum heimi.
Við erum afar ánægð með þessa viðbót við þjónustu Akademias sem viðskiptavinir hafa fagnað. Avia gerir okkur kleift að einfalda líf mannauðs- og fræðslustjóra gríðarlega mikið en jafnframt skapa mikið hagræði fyrir vinnustaði,“ er haft eftir Guðmundi Arnari Guðmundssyni framkvæmdastjóra Akademias í tilkynningunni.
Akademias hefur á undanförnum árum verið leiðandi í rafrænni fræðslu á Íslandi og þjónustar yfir 100 vinnustaði í gegnum Vinnustaðaskóla Akademias. Akademias er fremst í flokki í framleiðslu á rafrænu fræðsluefni, með 10 manna framleiðsludeild sem sérhæfir sig í mótun og gerð rafræns fræðsluefnis.