Hagræðingaraðgerðir skilað árangri

Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku.
Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku. Haraldur Jónasson/Hari

Umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir hjá Kviku hafa skilað sér í miklum bata í rekstri fyrirtækisins á þriðja fjórðungi þessa árs. Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku segir í samtali við Morgunblaðið að árangur bankans þegar kemur að kostnaði hafi verið einstaklega góður síðastliðið ár þrátt fyrir mikla verðbólgu og launahækkanir.

Kvika hefur fækkað starfsmönnum talsvert á árinu eða um 10%. Þá hefur bankinn lagt mikla áherslu á að halda kostnaði í lágmarki.

„Þær krefjandi aðhalds- og hagræðingaraðgerðir sem hófust síðasta haust og hafa staðið yfir síðan hafa skilað þessum mikla árangri,“ segir Ármann.

Kvika hyggst greiða út 20 milljarða króna arð þegar salan á TM klárast. Það er hærri upphæð en áður hefur verið gefið út. 

Ef miðað er við uppgjör Kviku í lok þriðja fjórðungs nemur áætlað söluandvirði TM um rétt rúmum 30 milljörðum króna.

Þóknanatekjur hækkuðu um 17%

Hreinar þóknanatekjur á fjórðungnum hækkuðu um 17% borið saman við þriðja fjórðung á síðasta ári. Þær námu tæpum 1,6 milljörðum á tímabilinu en voru rúmir 1,3 milljarðar á sama tímabili í fyrra.

Í uppgjörinu kemur fram að ástæðuna fyrir vextinum megi rekja til aukinna umsvifa greiðslumiðlunarfyrirtækisins Straums sem hóf starfsemi innan samstæðunnar á síðasta ári og aukinna útlánaþóknana. Aðrar rekstrartekjur á fjórðungnum námu 474 milljónum króna á tímabilinu en þær voru neikvæðar á síðasta ári um 148 milljónir króna. Munar þar helst um 665 milljóna króna viðsnúning fjárfestingatekna.

Fram kemur í uppgjörskynningu að skýringin liggi í markaðsaðstæðum sem voru betri á þriðja fjórðungi þessa árs en á sama tímabili í fyrra.

Kostnaður lækkað um 11% milli ára

Rekstarkostnaður Kviku var 2,3 milljarðar króna á fjórðungnum og lækkaði um 11% á milli ára.

Ármann segir að árangur bankans þegar kemur að kostnaði hafi verið einstaklega góður síðastliðið ár þrátt fyrir erfitt árferði. Á bak við þann árangur sé gríðarleg vinna starfsmanna bankans.

„Mikill árangur hefur náðst við að draga úr kostnaði. Þær krefjandi aðhalds- og hagræðingaraðgerðir sem hófust haustið 2023 og hafa í raun staðið yfir síðan hafa skilað þessum árangri,“ segir Ármann.

Starfsemi Kviku í Bretlandi gekk vel á fjórðungnum. Hreinar vaxtatekjur í Bretlandi jukust um 800 milljónir á milli ára. Ármann segir að vaxtahækkanir í Bretlandi á árunum 2022 og 2023 hafi verið bankanum óhagfelldar.

„Umhverfið á þessu ári hefur verið mun hagstæðara og lánabók hefur stækkað nokkuð. Þóknanatekjur jukust einnig á milli ára sem og fjárfestingatekjur. Fjárfestingar bankans í Bretlandi hafa gengið vel. Þá hefur kostnaður í starfsemi okkar í Bretlandi lækkað umtalsvert milli ára,“ segir Ármann að lokum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK