Vilja stýra eigin peningastefnu

Heimsmarkaðir Olav Chen er forstöðumaður hjá Storebrand, sem er stærsta …
Heimsmarkaðir Olav Chen er forstöðumaður hjá Storebrand, sem er stærsta eignastýringarfyrirtækið í Noregi. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Olav Chen, forstöðumaður hjá norska eignastýringarfyrirtækinu Storebrand, segir það ráðgátu hvað veldur vandræðum norsku krónunnar.

Vandræðagangur hennar hefur leitt til þess að sumir stjórnmálamenn þar í landi hafi laumað Evrópuumræðu aftur á dagskrá en að hans mati væri farsælla fyrir Noreg að ráða eigin peningastefnu.

Hið litla, opna hagkerfi Noregs sé frábrugðið því evrópska en mikilvægt sé að það búi yfir stöðugum gjaldmiðli.

Klóra sér í kollinum yfir krónunni

Hefur vandræðagangur norsku krónunnar haft áhrif á afstöðu norsks almennings til Evrópusambandsins, sem Noregur stendur í dag utan?

„Ég hef verið nokkuð virkur í samfélagsumræðunni í Noregi og hef reynt að stíga varlega til jarðar í þessum efnum, því þetta er orðið hápólitískt mál. Einhverjir flokkar í Noregi hafa áhuga á að ganga í Evrópusambandið og hafa reynt að lauma þessari umræðu á dagskrá aftur, hvort það eigi að festa gengi krónunnar við evru,“ segir Olav.

Eitthvað hafi gerst árið 2022 en Olav áttar sig ekki á því nákvæmlega hvað, frekar en nokkur annar.

„Þeir drifkaftar sem voru að verki fyrir árið 2022 eru ekki það ráðandi í dag og það botnar hreinlega enginn í þessu, sem gerir það snúnara að leysa vandann,“ segir hann.

Til að mæta vanda norsku krónunnar hefur stefna norska seðlabankans, Norges Bank, verið að auka vaxtamuninn.

„Norski seðlabankinn bíður þar til allir aðrir seðlabankar hafa lækkað vexti, þannig að vaxtamunurinn við önnur lönd aukist. En við höfum séð það síðustu tvö ár að í hvert skipti sem norski seðlabankinn nýtir vaxtamuninn hefur styrking krónunnar verið mjög skammvinn. Hún hefur kannski enst í einn mánuð og svo hafa áhrifin dvínað.“

Hann segir Svía hafa lent í svipuðum vandræðum með sænsku krónuna en þeir völdu að fara aðra leið.

„Við vorum nýverið í Svíþjóð og áttum áhugavert samtal við seðlabankann þar í landi. Þeir höfðu gengið í gegnum sama vandamál með sænsku krónuna fyrir ári eða tveimur og litu til að byrja með til vaxtamunarins. En það er skemmst frá því að segja að þeir komust fljótlega að þeirri niðurstöðu að vaxtamunarleiðin væri skammgóður vermir og féllu alfarið frá því að nota hana. Þvert á móti hafa Svíar lækkað vexti þrisvar og með því lækkað vaxtamun sinn við önnur lönd. Sænsku krónunni hefur fyrir vikið vegnað mun betur en þeirri norsku,“ segir Olav.

Lítið og opið hagkerfi

Hvað Evrópusambandið og evruna varði sé meginröksemdin í Noregi að norska hagkerfið sé ólíkt því evrópska.

„Jafnvel þótt því sé spáð að vægi olíuiðnaðarins verði minna í Noregi, þá verður það áfram hátt. Við viljum halda í möguleikann á því að stýra peningastefnu landsins sjálfir. Á móti kemur að afleiðingar þess að krónan hegði sér eins og hún gerir nú eru miklar. Það er þó mikilvægt að fólk átti sig á því að vandinn felst einkum í gengissveiflunum, frekar en því hvar nákvæmlega hún stendur gangvart öðrum myntum.“

Noregur sé lítið land með opið hagkerfi og sökum þess skipti miklu máli að hafa stöðuga mynt.

„Það er ekki hægt að hafa stjórn á verðbólgu án þess að hafa stjórn á myntinni, vegna þess að þriðjungur körfunnar í vísitölunni er innfluttur, sem er nokkuð sem við eigum sennilega sameiginlegt með Íslandi. Allt er meira og minna innflutt. Gengið í dag hefur bein áhrif á verðbólgu sex til níu mánuði fram í tímann.“

Einhverjir hafa reynt að skrifa þennan vandræðagang á pólitíska óvissu, en Olav vísar þeirri umræðu til föðurhúsanna.

„Simbabve og Venesúela búa við pólitíska óvissu, ekki Noregur. Pólitísk óvissa er mjög neðarlega á lista hjá mér yfir mögulega áhrifaþætti, en fólk notar það samt í umræðunni,“ segir Olav.

Nánar var rætt við Olav í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK