Neytendur ráða á endanum

Ásgeir Reykfjörð forstjóri Skeljar segir að félagið hafi náð miklum …
Ásgeir Reykfjörð forstjóri Skeljar segir að félagið hafi náð miklum árangri á skömmum tíma. mbl.is/Arnþór

„Ég held að það hafi engum tekist að reka netverslun með mat með hagnaði hér á Íslandi. Það getur þó skipt máli að bjóða upp á þennan þjónustuþátt. Bæði starfsmannakostnaður og dreifingarkostnaður er hár hér á landi,“ segir Ásgeir Reykfjörð í miðopnuviðtali ViðskiptaMoggans.

Tap Heimkaupa nam 612 milljónum króna á síðasta ári samanborið við tap upp á 551 milljón króna árið áður. 

Heimkaup opnaði nýlega lágverðsverslunina Prís en fram kom í afkomutilkynningu að kostnaðurinn við opnun Príss hafi verið 400 milljónir króna.

Ásgeir segir að þeim peningum hafi verið vel varið enda hafi viðtökurnar verið afar góðar.

„Það eru á endanum neytendur sem ráða hvaða verslanir lifa og hverjar gera það ekki og þeir ákveða það með veskinu hverju sinni,“ segir Ásgeir.

Skel færði niður eignarhlut sinn í Heimkaup um 20%, spurður um ástæðu þess segir hann að Heimkaup hafi ekki náð þeim fjárhagslegu markmiðum sem að var stefnt.

„Það er alltaf áhætta fólgin í umbreytingarverkefnum og það geta orðið átök. Stundum gengur allt í haginn en það kemur fyrir að hlutirnir ganga ekki jafnvel og maður reiknaði með. Þá er ekkert annað í stöðunni en að taka á því og halda áfram,“ segir Ásgeir.

Heimkaup vinnur nú að því að tryggja sér frekari fjármögnun með annaðhvort lánsfjármögnun eða nýju hlutafé. Áður en samrunaviðræðurnar við Samkaup hófust stefndi Skel á að fara í hlutafjáraukningu í Heimkaup og fá meðfjárfesta að Prís.

„Þegar viðræðurnar við Samkaup hófust þá töluðum við ekki við neinn annan á meðan. Skel hefur verið stærsti fjárhagslegi bakhjarl Heimkaupa og sú fjármögnun sem félagið hefur sótt sér hefur verið að meginstefnu til í gegnum okkur,“ segir Ásgeir.

Hagræðing skili bættri afkomu

Í ársreikningi Heimkaupa kemur fram að búist sé við að hagræðingaraðgerðir skili bættri afkomu á þessu ári. Spurður hvað felist í þeim aðgerðum segir Ásgeir að lækkun kostnaðar sé meðal þessa.

„Við höfum einnig einfaldað vöruframboðið í verslunum og kerfum okkar. Það er algjörlega ljóst að það verður áfram tap á Heimkaupum á þessu ári, spurningin er hvað tekur við á næsta ári og hvernig uppbyggingu félagsins verður háttað,“ segir Ásgeir.

Eitt af markmiðum Príss er að bjóða ávallt upp á lægsta verðið. Spurður hvort það sé raunhæft að byggja rekstrarlíkan á því að vera alltaf með lægsta verðið segir Ásgeir að því fylgi áskoranir.

„Álagningin í Prís er mjög lág þannig að til þess að ná ásættanlegri afkomu þarf að vera með mikla veltu. Hvort þetta gangi upp verður tíminn að leiða í ljós, en viðtökurnar voru umfram væntingar,“ segir Ásgeir.

Sjáið þið tækifæri í að samþætta starfsemi Lyfjavals og Príss?

„Nei. Ég tel að þunga regluverkið í kringum starfsemi apóteka geri það erfitt. Ég tel þó að mikil tækifæri séu í netsölu með lyf. En til að ná arðbærri netsölu þá verður veltan að vera umtalsvert meiri en hún er í Lyfjavali.“

Viðtalið birtist í heild sinni í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK