Brynja Dan heldur um alla þræði á vefnum 1111.is sem fyrr en vefurinn fór aftur í loftið sl föstdagskvöld í tengslum við Dag einhleypra í dag. Hún segir að undirbúninginn hafa gengið vel, enda sé þetta í tíunda skiptið sem jólagjafahandbókin, eins og hún kallar hana, kemur út á Degi einhleypra.
„Við vorum frekar snemma á ferð í ár en einhvern veginn endar maður alltaf í stressi samt en það er líklega bara óumflýjanlegt. En það er alltaf gaman að renna yfir listann og sjá gömul og góð fyrirtæki sem hafa fylgt okkur í mörg ár í bland við ný,“ segir hún og bætir við að að rúmlega 300 fyrirtæki séu með af öllum stærðum og gerðum. ,,Við erum með gríðarlega breitt vöruúrval. Við erum að bjóða upp á allt frá kattamat og fuglafóðri yfir í flugferðir og demanta," segir Brynja
Tilboðin á síðunni eru skipulega flokkuð eftir því hvers konar vörur fyrirtækin bjóða.
„Það sem kannski er svona að breytast er að það eru alltaf að bætast við nýjar upplifanir og það er ótrúlega gaman að sjá hvað sá flokkur hefur stækkað.“
Veglegir afslættir
Brynja segist vera excel-týpan þegar hún er spurð að því hvort hún eigi einhver ráð fyrir þá sem vilja skipuleggja innkaupin vel á Degi einhleypra.
„Ég er með allar gjafir síðustu árin í skjali svo ég sjái hvað hver fékk, en við opnuðum frekar snemma í ár eða sl föstudagskvöld svo fólk hafi alla helgina og út mánudag til að skoða og klára jólainnkaupin. Ég mæli með að skoða vel því það er, án gríns, falinn fjársjóður af allskonar hugmyndum sem koma svo skemmtilega á óvart. Það er gaman að gefa sér tíma í þetta og fá þetta svo bara sent heim með Póstinum eða beint í póstboxið og geta slakað á næstu vikurnar fram að jólum. Stressið er þá að minnsta kosti úr sögunni. Það eru svo auðvitað veglegir afslættir og ég hvet fólk til að nýta sér þá,“ segir Brynja.