Ásgeir Reykfjörð forstjóri Skel sá tækifæri í að læra á fjármálastarfsemi út frá regluverkinu þar sem fáir höfðu áhuga á þeim þætti geirans. Þetta segir hann í miðopnuviðtali við ViðskiptaMoggann, en þar fer hann meðal annars yfir feril sinn.
Ásgeir er lögmaður að mennt en árið 2004, þegar hann var enn í námi, þáði hann starf hjá Straumi fjárfestingarbanka. Hann segir að lögfræðin hafi verið góður undirbúningur að störfum í fjármálageiranum. Hjá Straumi byrjaði Ásgeir að starfa sem laganemi en tók síðar við sem regluvörður fyrirtækisins. Á þeim tíma var vinna hafin við að innleiða Evrópuregluverkið inn í íslenskan rétt.
„Á þessum árum var bankakerfið að þenjast virkilega hratt út og íslenskir bankar voru með starfsemi í mörgum löndum. Mönnum í geiranum þótti regluverkið ekki vera sá hluti starfseminnar sem var áhugaverðastur og ég sá því tækifæri í að læra vel á það. Þannig að ég sökkti mér í að læra fjármálastarfsemi út frá þeirri hlið,“ segir Ásgeir.
Eftir að Straumur varð gjaldþrota hóf Ásgeir störf í lögmennsku hjá Logos lögmannsstofu, sem var með starfsemi í London, og þar sem þetta var rétt eftir efnahagshrunið vann hann mikið að verkefnum tengdum endurskipulagningu félaga. Einkum Íslandsbanka, Landsbanka og uppgjörum afleiðumála. Þegar hann kom frá London var hann ráðinn yfirlögfræðingur MP banka sem síðar sameinaðist Straumi, sem þá hafði verið endurreistur, og úr varð Kvika fjárfestingarbanki. Um tíma fékk hann leyfi frá Kviku og sat í nefnd um losun fjármagnshafta ásamt Jóni Sigurgeirssyni, Benedikt Gíslasyni og Sigurði Hannessyni. Sú nefnd vann að samkomulagi við erlenda kröfuhafa í þrotabú föllnu bankanna sem fól í sér greiðslur á stöðugleikaframlagi sjóðanna í ríkissjóð, sem lagði grunninn að afnámi gjaldeyrishafta sem sett höfðu verið árið 2009.
„Það var ótrúlega skemmtilegt verkefni sem leystist farsællega og ég er virkilega stoltur að hafa verið hluti af því,“ segir Ásgeir.
Ásgeir var starfandi á fyrirtækjasviði Kviku banka árið 2019 þegar hann fékk símtal frá Benedikt Gíslasyni, bankastjóra Arion banka, sem bauð honum starf aðstoðarbankastjóra. Benedikt og Ásgeir höfðu þekkst lengi, enda höfðu þeir unnið saman áður.
Arion banki fór í kjölfarið í gegnum mikið umbreytingarferli undir stjórn Benedikts og Ásgeirs, þar tókst að hagræða verulega í rekstrinum.
„Við vildum fyrst og fremst skerpa á vinnustaðamenningunni innan bankans og hlutverki hans í íslensku samfélagi og ég held að þeirri umbreytingu sé að mestu leyti lokið. Bankinn hefur verið á virkilega góðu skriði undanfarið og ég tel að umbreytingarverkefnið sem við ýttum af stað hafi breytt menningunni innan bankans til hins betra,“ segir Ásgeir.
Spurður hvort það hafi verið erfið ákvörðun að hætta í Arion banka og taka við starfi forstjóra Skeljar segir Ásgeir að það hafi verið virkilega erfitt.
„Það er rosalega gaman að vinna í banka og ég vann með mörgu skemmtilegu fólki í Arion banka. Þannig að það var ekki auðveld ákvörðun að söðla um og yfir í annan geira,“ segir Ásgeir. Hann segist engu að síður hafa heillast af áskoruninni sem blasti við hjá Skel. „Ég hef mjög gaman af umbreytingum. Mér fannst hugmyndin um að taka rúmlega 90 ára gamalt olíudreifingarfyrirtæki og breyta í fjárfestingarfélag mjög áhugaverð. Þetta form, breyting á gamalgrónu rekstrarfélagi í fjárfestingarfélag er nokkuð þekkt á Norðurlöndunum og var reynt hér á landi í upphafi aldarinnar en verkefnin féllu um sjálf sig í fjármálakreppunni.“
Spurður hvers vegna hann telji að það séu ekki fleiri félög sambærileg Skel á markaði segir Ásgeir það vel geta breyst.
„Það eru önnur mjög burðug fjárfestingarfélög hérlendis, t.a.m. Stoðir og Hvalur. En til þess að svona félög vaxi og dafni þurfa verkefnin að vera fyrir hendi sem og öflugt fjármálakerfi.“ Ásgeir segir að Skel hafi náð miklum árangri á skömmum tíma.
„Við höfum náð að umbreyta félögum og dæmi um það er Kaldalón sem var íbúaþróunarfélag en er nú orðið að öflugu fasteignafélagi á aðalmarkaði sem nýtur fjármögnunarkjara til samræmis við það sem eldri fasteignafélögin gera. Sú umbreyting hefur verið leidd áfram af Jóni Þór Gunnarssyni forstjóra. Þarna sérðu félag sem var í raun og veru í ákveðinni tilvistarkreppu sem verður síðan að öflugu félagi og áhugaverðum fjárfestingarkosti á einu af þeim kjarnasviðum sem við fjárfestum í,“ segir Ásgeir.
Kjarnafjárfestingar Skeljar eru á sviði iðnaðar, smásölu, fasteigna, fjármálastarfsemi og erlendrar fjárfestingar á sviði smásölu. Spurður hvar hann sjái helst vaxtarmöguleika í rekstrinum segir hann að þau liggi víða. Hann nefnir fyrst uppbyggingu innviða og orkuöflun.
„Það er til staðar innviðaskuld hér á landi og við þurfum að auka orkuframleiðslu. Við erum að sjá stórar fjárfestingar í landeldi og laxeldið fer vaxandi. Við tókum ákvörðun um stofnun Styrkáss sem er félag sem hefur það beinlínis að markmiði að þjónusta atvinnulífið við þessa uppbyggingu hérlendis í gegnum fimm kjarnasvið. Við fengum jafnframt Horn, sem er sjóður í rekstri Landsbréfa, með í verkefnið og nú síðast Ásgeir Þorláksson sem samhliða seldi Styrkási fyrirtækið Stólpa,“ segir Ásgeir.
Viðtalið má lesa í heild sinni í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.