Innherji: Niðurskurður nauðsynlegur

Fjölskyldumynd, leiðtogar og vinir hittast á loftslagsráðstefnunni í Baku.
Fjölskyldumynd, leiðtogar og vinir hittast á loftslagsráðstefnunni í Baku. AFP/Alexander NEMENOV

Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.

Eftir kosningasigur Donalds Trumps í Bandaríkjunum virðist ljóst að náttúruverndarsinnar og sjónarmið þeirra eigi ekki upp á pallborðið þar í landi lengur. Þar verður ekki lengur hægt að fórna orkuöryggi fyrir illa útfærð verndarsjónarmið náttúrunnar, nokkuð sem gert var í Alaska.

Stjórnmálamenn hafa sýnt það í gegnum árin og kannski einna helst síðustu vikur að þeim er illa treystandi til að stika leiðina til framtíðar, óstuddir hið minnsta. Markaðurinn sér betur um þetta sjálfur og endurmetur markmið og áætlanir stöðugt. Því sem ekki gengur er hætt og aðilar sem standa sig illa kvaddir.

Kílómetragjald á ökutæki og boðað bann við sölu á bensín- og dísilbílum er gott dæmi um misskilda umhverfisstefnu. Ríkisfyrirtækið Skatturinn sendir út bréf til eigenda ökutækja sem ganga fyrir þessum orkugjöfum og tilkynnir þeim að nú þurfi að skrá kílómetrastöðu öku­tækisins. Þingið er hins vegar ekki búið að ákveða útfærslu á kílómetragjaldi fyrir þessi sömu ökutæki. Eitthvað sem á að taka gildi næstu áramót. Því eru þessar upplýsingar sem Skatturinn óskar eftir óþarfi á þessum tímapunkti.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og hennar flokkur, Viðreisn, ásamt Samfylkingunni, boða bann við sölu á sömu ökutækjum. Viðreisn strax á næsta ári en Samfylkingin örlítið síðar. Þorgerður bakkaði reyndar eitthvað því hún áttaði sig á því hvað þetta var óraunhæf krafa, skaðlegt fyrir heimili landsins og ekki líklegt til árangurs í kosningum. Það voru því ekki umhverfissjónarmið hennar sem réðu för heldur kjörkassarnir.

Við vitum ekki í dag hvaða ökutæki verða hagkvæmust til framtíðar og því skynsamleg fyrir umhverfið. Þetta er nokkuð sem er í stöðugri þróun og verður það um ókomin ár. Rótgrónir framleiðendur eins og Volkswagen í Þýskalandi eru svo bundnir í regluverk Evrópusambandsins að óvíst er að hann lifi af í því formi sem hann er. Bæði Bandaríkin og Evrópusambandið eru logandi hrædd við framleiðslu Kína á rafbílum og íhuga ofurtolla. Þeir tollar hafa ekkert með umhverfið að gera. Framleiðendur geta einfaldlega ekki keppt við Kína.

Íslenskir stjórnmálamenn gengu of langt í umhverfismarkmiðum sínum. Settu landið í fjötra sem bitna á okkur öllum. Parísarsamkomulagið og Árósasamningurinn er eitthvað sem þarf að endurskoða enda stendur Ísland sig betur en flest önnur lönd þegar kemur að orkuskiptum og umhverfi.

Annað dæmi sem vert er að nefna er skattlagning á auðlindir eins og Samfylkingin boðar. Fram kemur í stefnuskrá þeirra að auðlindir séu skilgreindar sem „allir þættir náttúrunnar, jörðin, lífríkið, vatn, loft og sólarljós“. Kristrún Frostadóttir hjá Samfylkingu vill skattleggja þessa þætti, orkuna og sjávarútveginn sérstaklega. Ekki andardráttinn strax en það kemur mögulega.

Staðreyndin er hins vegar sú að orkufyrirtækin eru einkum í eigu ríkis og sveitarfélaga. Arður Landsvirkjunar skilar sér allur til ríkisins sjálfs óháð skattlagningu og Reykjavíkurborg lifir á sínu fyrirtæki. Væri eflaust farin á hausinn án þess.

Svandís Svavarsdóttir hjá Vinstri-grænum kemur síðan og vill helst ganga svo langt að skattleggja allan hagnað sjávarútvegsfyrirtækja. Að hennar mati munu stjórnmálamennirnir síðan úthluta styrkjum til fyrirtækjanna til að kaupa hagkvæm fiskiskip og önnur verkfæri sem þessir stjórnmálamenn telja að fyrirtækin þurfi fyrir rekstur sinn.

Markaðurinn og fyrirtæki landsins eru sterk. Fyrir­tækin skapa mikla atvinnu og búa til hagsæld þjóðarinnar með stöðugri þróun rekstrar og tækni­framförum. Sjórnmálamenn skapa engin verðmæti. Þeir ættu að hætta að tala um auknar álögur og taka til í ríkisbákninu. Það myndi auka hagsæld þjóðarinnar ef heiðarlega væri skorið niður í ríkisfjármálum og augljósum vanhugsuðum verkefnum hætt. Fáir flokkar virðast ræða vandamálið sem ríkið sjálft er.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK