Orkufyrirtækið Landsvirkjun hagnaðist, fyrir óinnleysta fjármagnsliði, um sextíu og fimm milljónir Bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi, eða 8,7 milljarða króna.
Á sama tíma á síðasta ári var hagnaður fyrirtækisins 94 milljónir dala eða þrettán milljarðar króna.
Eignir Landsvirkjunar námu í lok tímabilsins 3,6 milljörðum dala, jafnvirði tæpra fimmhundruð milljarða íslenskra króna, og drógust lítillega saman milli ára.
Eigið fé félagsins er 2,3 milljarðar dala, eða 320 milljarðar króna, og lækkar lítillega milli ára.
Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins er 62,4%.
Tekjur Landsvirkjunar á tímabilinu námu 135 milljónum dala en þær voru 164 milljónir árið á undan. Í ársreikningnum segir að breytingin milli ára skýrist aðallega af lægri innleystum áhættuvörnum og raforkusölu þar sem ekki séu lengur tengingar við verð á Nord Pool markaði og þess að selt magn dregst saman vegna skerðinga.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar segir í tilkynningu að reksturinn gangi áfram vel í sögulegum samanburði þó hann jafnist ekki á við metafkomu ársins 2023.
„Hagnaður af grunnrekstri á þriðja ársfjórðungi nam 65 milljónum bandaríkjadala, eða rúmlega 8,7 milljörðum króna og dróst saman um 31%. Aðstæður voru áfram krefjandi á þriðja fjórðungi. Vatnsbúskapur var sögulega lakur eftir þurrt og kalt sumar á hálendinu og litla bráðnun jökla. Rekstrartekjur drógust saman miðað við sama tímabil 2023 í takti við minna selt magn, auk breytinga á verðtengingu í samningi við stórnotanda og lækkunar innleystra áhættuvarna.
Fjárhagslegur styrkur Landsvirkjunar vex áfram. Eiginfjárhlutfall er nú rúmlega 62% og lánshæfismatsfyrirtækið S&P staðfesti A- langtímaeinkunn fyrirtækisins með stöðugum horfum í lok september.“