Nanna Kristín Tryggvadóttir tók við sem framkvæmdastjóri hjá Bestseller á Íslandi í byrjun ágúst síðastliðins, en fyrirtækið rekur meðal annars verslanir undir merkjum Selected, Vero Moda, Jack&Jones, Vila, barnafataverslunina Name It og íþróttavöruverslunina Jóa útherja. Nanna Kristín er í svipmynd ViðskiptaMoggans þessa vikuna.
Hún segir að það helsta á döfinni hjá Bestseller sé opnun verslana; annars vegar Jóa útherja í Smáralind og hins vegar Selected í Kringlunni á næstu dögum.
Um þessar mundir er Nanna Kristín eins og annað starfsfólk Bestseller í óðaönn að undirbúa jólavertíðina sem hófst með 11.11.-afsláttardeginum. Fram undan eru svo mikilvægustu vikur ársins fyrir smásölufyrirtæki á landinu.
Ég myndi segja að helsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir núna, ef ég tek vaxtastigið út fyrir sviga, væri samkeppnin við erlendar netverslanir sem geta boðið sömu eða sambærilegar vörur og við erum að selja, á verði sem við hreinlega getum ekki keppt við með íslenskan launa- og fasteignakostnað.
Við sjáum það í nýlegum fréttum að Íslendingar hafa verslað fyrir 27 milljarða á erlendum netverslunum það sem af er ári samanborið við 19 milljarða í fyrra. Það þýðir að það eru átta milljarðar sem skila sér ekki í innlenda verslun.
Annað fólk veitir mér oftast mestu orkuna. Bæði framúrskarandi samstarfsfólk mitt, sem er alltaf að hugsa upp einhverjar klókari leiðir til að vinna hlutina.
Svo hittir maður oft fólk á förnum vegi sem er kannski að gera eitthvað allt annað og áhugaverða hluti í lífinu og taka spjall um hvað drífur helst á daga þess. Þetta fólk er iðulega að gera eitthvað magnað sem veitir manni hvatningu og innblástur.
Við stefnum á að opna Selected í Kringlunni aftur eftir brunann í sumar núna á næstu dögum. Það er langþráð og þar með hafa allar búðirnar okkar í Kringlunni verið opnaðar aftur. Auk þess erum við að opna nýja Jóa útherja-búð í Smáralind, sem er líka mjög spennandi.
Fram undan eru svo stærstu vikurnar í verslunum landsins. Við erum á fullu að taka upp nýjar sendingar og undirbúa jólasöluna. Þar fyrir utan er helsta verkefnið að leggja lokahönd á áætlunargerð næsta árs.
Ég veit ekki hvort ég get sagt að það hafi haft mest áhrif á það hvernig ég starfa, en bókin Outliers eftir Malcolm Gladwell situr alltaf í mér. Hún minnir mann á það að flestir sem hafa náð einhverjum stórkostlegum árangri hafa þurft að leggja mikið á sig til þess.
Ég reyni að gera það með því að lesa bækur eða sækja námskeið. Heimurinn er að breytast hratt með tækninýjungum og gervigreind og það er áhugavert að velta því upp hvernig hægt sé að nýta þessa nýju tækni í hefðbundnum rekstri. Hljóðbækur finnst mér frábær uppfinning og ég nota þær mikið þegar ég er á ferðinni.
Alla jafna geri ég það, en örugglega eins og hjá mörgum þá kemur það svona í törnum. Það er ótrúlegt hvað það er alltaf erfitt að koma hreyfingu aftur inn í rútínu ef maður dettur úr gír.
En ég reyni að fara reglulega í ræktina og oft sel ég sjálfri mér þá hugmynd að mæta og gera bara smá og fara svo í pottinn ef ég nenni alls ekki. Það er nefnilega þannig að um leið og maður er mættur man maður hvað hreyfingin gefur manni mikla orku.
Ég veit ekki hvort það sé eitthvert eitt draumastarf heldur að draumastarfið sé starf þar sem maður er stöðugt að kljást við verkefni sem eru bæði skemmtileg og krefjandi, með skemmtilegu og kláru fólki.
Ég hef verið heppin að því leyti að hafa starfað í dýnamísku umhverfi bæði nú og í mínum fyrri störfum og það gefur mér mikið.
Ætli það væri ekki forritun eða eitthvað tengt gervigreind. Heimurinn er að breytast svo hratt og ekki síst fyrir tilstilli þessara greina og því held ég að það væri gagnlegt.
Svo erum við hjá Bestseller búin að vera að skipta um tölvukerfi hjá okkur og ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef hugsað hvað það væri gott að geta bara græjað það sjálf þegar það þarf að laga eitthvað sem manni finnst smávægilegt.
Greinin birtist í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.