Hjörtur H. Jónsson skrifar um efnahagsmál:
Það líður hratt að kosningum og þessa dagana reyna stjórnmálaflokkarnir með öllum ráðum að koma stefnu sinni á framfæri, oftar en ekki með miklum einföldunum og í slagorðastíl. Fyrir þessar kosningar eru efnahagsmálin í brennidepli enda staðan að mörgu leyti erfið líkt og oft áður í okkar litla og viðkvæma hagkerfi. Í þessu samhengi eiga allir flokkarnir það sameiginlegt að þeir ætla að ná niður verðbólgu, án þess að fara út í mikil smáatriði um hvernig það skal gert. Aðrar áherslur flokkanna snúa síðan oftar en ekki að aukinni verðmætasköpun eða meiri jöfnuði í dreifingu verðmætanna sem við búum til.
Slagorð flokkanna kunna að hljóma einföld og sannfærandi en fela þá staðreynd að undirliggjandi er afar flókið efnahagslegt og félagslegt kerfi þar sem ekki er allt sem sýnist. Jafnvel grundvallarhugtök í umræðunni, líkt og hugtakið verðmæti eða virði, eru alls ekki jafn skýr og óumdeild og ætla mætti sem gerir einfaldanir og upphrópanir óljósar og merkingarlitlar.
Þótt hugtakið virði hafi verið viðfangsefni heimspekinga að minnsta kosti frá tímum Forn-Grikkja var það ekki fyrr en á átjándu öldinni sem fram komu formlegar kenningar innan hagfræðinnar um eðli þess en þá komu fram tveir meginskólar. Sá fyrri birtist í skrifum Adams Smiths og mætti kalla vinnuaflskenninguna um virði. Adam benti á að virði væri almennt af tvennum toga, í fyrsta lagi gæti það verið notagildi viðkomandi hlutar en í öðru lagi mælikvarði á hversu mikið af öðrum hlutum sé hægt að fá í skiptum fyrir viðkomandi hlut. Í þessu samhengi benti hann á að hlutir með mikið notagildi hafa oft á tíðum lítið virði í skiptum og sem dæmi nefndi hann muninn á vatni sem augljóslega er lífsnauðsynlegt en ódýrt og demöntum sem eru afar dýrir en með sáralítið notagildi. Niðurstaða Adams var að virði hlutar stæði í réttu samhengi við þá vinnu sem einstaklingurinn væri tilbúinn að leggja á sig til að eignast hann. Seinni skólinn er gjarnan nefndur jaðarhyggja, en þar er virði hlutar huglægt og tengt gildi hlutarins fyrir tiltekinn einstakling. Sami hlutur getur þannig haft mismunandi virði eftir því hversu marga slíka hluti viðkomandi einstaklingur á fyrir sem augljóslega hefur áhrif á það hversu mikið hann er til í að gefa fyrir hann. Sem dæmi myndi einhver sem væri að deyja úr þorsta í eyðimörkinni gefa nánast hvað sem er fyrir vatnsglas en ef hann fengi stóran kút af vatni myndi hann líklega ekki vilja gefa mikið fyrir eitt glas í viðbót.
Þegar við hugsum um hluti eða þjónustu virðist blasa við einn augljós mælikvarði á virði þeirra sem er verð þeirra mælt með peningum. Þegar betur er að gáð er slík mæling þó háð augljósum annmörkum en sem dæmi hefur öruggt umhverfi eða góð heilsa klárlega mikið virði þó að á sama tíma sé hvergi hægt að sjá hvað slíkt kostar eða hvernig megi örugglega öðlast slíkt.
Af fullri sanngirni þá geta stjórnmálaflokkar í kosningabaráttu tæplega leyft sér annað en að hamra á stuttum skilaboðum þegar kemur að efnahagsmálum, skilaboðum sem í besta falli eru miklar einfaldanir en í versta falli innihaldslausar upphrópanir. Í þeirri stöðu er lítið annað fyrir kjósendur að gera en að velja þann sem þeir treysta best til að hámarka þau gæði sem hafa mest virði fyrir viðkomandi en þá er gott að hafa í huga að þeir frambjóðendur sem raunverulega trúa því að flókin viðfangsefni hafi ofureinfaldar lausnir eru líklega ekki traustsins verðir.
Höfundur er forstöðumaður hjá ALM Verðbréfum.