Aðstoðaframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og forstöðumaður efnahagssviðs segir stýrivaxtarlækkun Seðlabankans vera ánægjuleg tíðindi og í takt við það sem greiningar- og markaðsaðilar höfðu búist við.
„Það var einnig jákvætt að sjá að verðbólguspá bankans hliðraðist talsvert niður á við fyrir næstu misseri sem gefur tilefni til að ætla að vextir geti haldið áfram að lækka tiltölulega hratt,“ segir Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, við mbl.is þegar hún var innt eftir viðbrögðum um þá ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að lækka stýrvexti bankans um 0,5 prósentustig.
Anna Hrefna segir mikilvægt að hafa í huga að sú verðbólguspáin geri ráð fyrir að launastefnan sem mörkuð var á almennum vinnumarkaði haldi og það sé mikilvæg forsenda þess að ná verðbólgu og vöxtum hratt og örugglega niður.
„Við sáum það einnig að spá bankans gerir ráð fyrir óhagfelldri framleiðniþróun sem þýðir að svigrúm til launahækkana er minna en talið var. Þess þá heldur er mikilvægt að samstaðan haldi á vinnumarkaði ef við viljum sjá áframhaldandi vaxtalækkanir,“ segir Anna Hrefna.
Hún segir það gefi auga leið að ekki sé svigrúm til frekari launahækkana en þær sem þegar hefur verið samið um.
„Þeir opinberu aðilar sem eiga eftir að semja þurfa að hafa þetta í huga og taka tillit til áhrifa áframhaldandi vaxtalækkana á bókhaldið.“