Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku banka, hefur verið í lykilhlutverki við umbreytingu og þróun bankans undanfarin ár. Í viðtali við ViðskiptaMoggann fór hann yfir sögu sína í fjármálageiranum, reynslu sína af bankahruninu, og þau tækifæri sem hann sér fyrir framtíð Kviku og íslensks fjármálamarkaðar.
Ferill Ármanns spannar áratugi í fjármálageiranum. Hann útskrifaðist með BA í sagnfræði og MBA frá Boston University áður en hann hóf störf hjá Kaupþingi árið 1994.
Ármann lýsir því hvernig hann, sem ungur forstjóri Kaupthing Singer & Friedlander í London, tók þátt í uppbyggingu alþjóðlegrar starfsemi Kaupþings.
„Ég var 34 ára þegar ég tók við sem forstjóri. Það var gríðarlega krefjandi en jafnframt ótrúlega lærdómsríkt,“ segir hann.
Árin fram að fjármálahruninu árið 2008 voru, að hans sögn, bæði spennandi og krefjandi, en árin eftir hrun reyndu mikið á. Eftir hrunið tók Ármann sér tíma til að jafna sig og skrifaði bókina Ævintýraeyjan.
„Ég lýsi í bókinni minni hvernig þetta reyndi á bæði andlega og líkamlega,“ segir hann og vísar til áskorana sem fylgdu falli íslensku bankanna.
„Hrunið var gríðarlegt áfall. Við unnum dag og nótt til að bjarga því sem bjargað varð,“ segir Ármann og nefnir að Kaupthing Singer & Friedlander hafi á endanum náð háum endurheimtum fyrir kröfuhafa, sem spannaði frá tæplega 90 til tæplega 100% eftir stöðu þeirra. Þá fengu kröfuhafar KSF á Mön allt sitt til baka og einnig vexti.
Enduruppbygging og ný verkefni
Ármann sneri sér að einkarekstri eftir hrun og stofnaði Ortus Secured Finance í Bretlandi ásamt fleirum. Ortus varð síðar hluti af Kviku, eftir að Ármann hafði selt sig út úr félaginu. Hann rifjar upp þau verkefni sem hann tók að sér árin eftir hrunið, bæði í einkafjárfestingum og ráðgjöf.
„Ég ákvað að snúa aftur í bankageirann þegar ég tók við forystu í fyrirtækjaráðgjöf hjá Virðingu árið 2015,“ segir hann.
Árið 2017 gekk Ármann til liðs við Kviku sem forstjóri og sinnti því starfi til ársins 2019 en þá óskaði hann eftir að verða aðstoðarforstjóri. Á þessum tíma kom hann að fjölmörgum samruna- og yfirtökuverkefnum, þar á meðal kaupum Kviku á Virðingu og síðar sameiningu TM og Kviku. Ármann hætti sem aðstoðarforstjóri árið 2022 en tók svo aftur við forstjórastöðunni árið 2023 eftir að Marinó Örn Tryggvason þáverandi forstjóri Kviku hætti.
Spurður hvers vegna hann tók við aftur sem forstjóri, segist Ármann hafa „saknað þess að vera í „hringiðunni“, en einnig taldi hann spennandi að leiða bankann á tímamótum eftir ákvörðun um að hætta samruna við Íslandsbanka.
Stefnumótun í Kviku
Þegar Ármann tók aftur við forstjórastöðunni kom í ljós að stjórn og stjórnendur töldu nauðsynlegt að ráðast í hagræðingaraðgerðir og móta nýja stefnu. Það leiddi meðal annars til sölu tryggingafyrirtækisins TM.
„Við mótuðum stefnu sem leggur áherslu á bankastarfsemi og eignastýringu,“ útskýrir Ármann. Hann telur mikilvægt að nýta fjártækni til að minnka kostnað og bæta framleiðni, sérstaklega í nýrri starfsemi eins og íbúðalánum. Kvika hefur nú þegar hafið undirbúning að veitingu íbúðalána fyrir einstaklinga en ásamt því eru nýjustu verkefni bankans meðal annars aukin áhersla á fjölbreyttar fjármögnunarlausnir í gegnum ýmis vörumerki bankans.
„Við erum að taka við innlánum í gegnum Auði, erum síðan með sterka stöðu í bílalánum hjá Lykli auk þess að bjóða upp á neytendalán í gegnum Netgíró og Aur,” segir Ármann.
„Þetta er hluti af fjölmerkjastefnu okkar sem hjálpar okkur að ná til ólíkra markhópa,“ útskýrir Ármann og bætir við að fjármagn vegna sölunnar á TM verði meðal annars nýtt til að styrkja enn frekar þessa fjölmerkjastefnu.
„Við viljum nýta tæknina til að veita þjónustu á hagkvæman hátt án þess að fjölga starfsfólki,“ segir Ármann.
Hann bætir við að stefna bankans sé að nýta innviði sína til að vaxa með innri vexti, frekar en með kaupum á öðrum fyrirtækjum.
Spurður hvort að of margir starfi í bankageiranum segir Ármann að „bankarnir hafi verið ansi duglegir við að hagræða á undanförnum árum og framleiðnin í bankakerfinu hafi batnað mikið”.
Ármann telur að ekki sé mikil hagræðingarþörf hjá bönkum núna en sameiningar á fjármálamarkaði gætu stuðlað að aukinni hagkvæmni. Hins vegar segir hann að Kvika hafi ekki í hyggju að leita eftir yfirtökum á næstunni, heldur einbeiti sér að innri vexti félagsins.
„Við erum að hugsa um að styrkja rekstur bankans og einblína á að stækka okkar bankastarfsemi“ útskýrir hann.
Ármann lýsir framtíðarsýn sinni fyrir Kviku sem banka sem stendur framarlega í nýsköpun og þjónustu.
„Við ætlum að vera í fararbroddi í fjártækni og nýta þá innviði sem við höfum byggt upp til að vaxa enn frekar,“ segir hann og nefnir að sterkur fjárhagsgrunnur Kviku, traustir innviðir og tæknilausnir séu lykillinn að áframhaldandi velgengni.
Spurður hvers vegna Kvika sá ekki tækifæri í að halda TM og samþætta bankastarfsemi og tryggingarekstur nefnir Ármann að skýringin á því sé meðal annars smæð Kviku banka í hefðbundinni bankastarfsemi.
„Við erum með litla hlutdeild í hefðbundinni viðskiptabankastarfsemi og erum því með minni tengsl við fyrirtæki og einstaklinga heldur en stærri bankarnir,“ segir Ármann og bætir við að getan til að selja viðskiptavinum aðrar afurðir sé því takmörkuð hjá Kviku.
Tækifæri á alþjóðavísu
Kvika hefur einnig styrkt stöðu sína erlendis, einkum í Bretlandi, þar sem dótturfyrirtækið Ortus sérhæfir sig í fasteignalánum.
Ármann segir að stærstur hluti starfseminnar þar tengist lánastarfsemi, en bankinn vinnur einnig að því að þróa fjárfestingarsjóði í Bretlandi.
„Við erum að setja upp framtakssjóðinn Hörpu, í samvinnu Kviku eignastýringar og Kviku Bretlandi, sem leggur áherslu á óskráðar fjárfestingar. Þetta er spennandi svið sem við sjáum mikla möguleika í,“ segir hann.
Auk þess vinnur bankinn að því að auka fjárfestingatækifæri fyrir íslenska viðskiptavini á erlendum mörkuðum.
Framtíð Kviku er því spennandi samkvæmt Ármanni, með auknum tækifærum á innlendum og erlendum mörkuðum, þar sem bankinn stefnir að því að vera öflugur keppinautur á sviði fjártækni og hefðbundinnar bankastarfsemi.
Samruninn við TM stærstu einstöku áhrifin
Hlufabréf Kviku banka voru afskráð á First North markaðinum í mars 2019 þegar viðskipti með hlutabréf Kviku hófust á Aðalmarkaði Kauphallarinnar en þá höfðu hlutabréf í Kviku verið skráð á First North markaðinn í rúmt ár.
Spurður út í hvaða þýðingu það hafði fyrir bankann nefnir Ármann að stærstu einstöku áhrif þess hafi verið samruninn við TM.
„Það að hafa skráð bréf eins og TM jók líkurnar á að samruni gat átt sér stað í ljósi þess að komið var markaðsverð á félagið,“ segir Ármann og bætir við að hluthafar í TM fengu bréf í bankanum við samrunann og fyrir Kviku að vera þátttakandi á Aðalmarki gerði það að verkum að hlutabréfin í félaginu voru betri gjaldmiðill en ef félagið hefði verið óskráð.
Mikil samkeppni í greiðsluþjónustu
Kvika rekur einnig greiðslumiðlun undir dótturfélagi sínu Straum sem að sögn Ármanns hefur gengið vel.
„Það er búið að takast mjög vel að byggja upp þá starfsemi og við erum með um 22% markaðshlutdeild í greiðsluþjónustu á Íslandi“ segir Ármann og bætir við að það hafi verið ótrúlegt hversu hratt hafi gengið að búa til fyrirtækið frá grunni en samkeppnin á þessum markaði sé hins vegar mikil.
Spurður um hver séu næstu skref hjá Kviku segir Ármann að nú sé fyrst og fremst verið að bíða eftir að salan á TM gangi í gegn svo hægt verði að skila fjármagni til hluthafa og nýta svo það sem eftir stendur til þess að stækka lánabækurnar og styrkja rekstur bankans enn frekar.
Flókið og umfangsmikið regluverk
Þegar Ármann er spurður út í það regluverk sem íslenskir bankar þurfa að starfa eftir þá eru svörin skýr.
„Ég held að það sem fólki í bönkunum þyki kannski erfiðast í sínum daglegu störfum, og mikill tími og kostnaður fer í, sé þetta gríðarlega flókna umfangsmikla regluverk sem við búum við. Það eru allir sammála um mikilvægi öflugs fjármálaeftirlits, en flókið eftirlit er ekki það sama og gott eftirlit. Regluverkið er í grunninn smíðað í Evrópu og mér hefur fundist eins og ákveðins hömluleysis hafi gætt þar á undanförnum áratug þegar kemur að þessum lagasetningum. Manni finnst oft eins og fólkið sem hefur útbúið þetta skeyti ekkert um hversu erfitt og kostnaðarsamt er að framfylgja mörgum þeim reglum sem útbúnar eru. Þá finnst mér líka margar af þessum reglum hreinlega vera illa úthugsaðar og snúast oft upp í andhverfu sína, til dæmis ýmsar reglur sem snúa að neytendavernd. Það segir mjög mikla sögu þegar norrænu fjármálaeftirlitin geta ekki orða bundist og óska eftir einfaldara regluverki, eins og kom fram í fréttum um daginn. Hinar Norðurlandaþjóðirnar eru þó margfalt stærri en við og hlutfallslegur kostnaður af þessu er miklu meiri fyrir íslensku bankana heldur stóru bankana á Norðurlöndum og í Evrópu. Staðreyndin er sú að engum dytti í hug að útbúa það regluverk, sem kemur yfir okkur frá Evrópu, fyrir Ísland sérstaklega og þetta er að skapa miklar flækjur og kostnað í starfsemi bankanna,“ segir Ármann.
Hann segir að fyrir utan það þá finnist honum líka óskynsamleg þessi mikla sértæka skattlagning á fjármálafyrirtækin.
„Ég held að fólk átti sig ekki á því hversu mikið þetta er. Flestir tala um bankaskattinn eins og þetta sé einn skattur en sannleikurinn er sá að í raun erum við með fjórar mismunandi sérálögur á bankana. Í fyrsta lagi er greiddur sérstakur fjársýsluskattur upp á 5,5% á launagreiðslur, svo greiðist auka 6% tekjuskattur á hagnað umfram hefðbundinn tekjuskatt, síðan er þessi 0,145% skattur á skuldir, sem flestir þekkja, en þess utan er mikill kostnaður lagður á bankana vegna hárrar bindiskyldu þar sem Seðlabankinn greiðir ekki neina vexti á innistæður bankanna. Þetta hefur bæði áhrif á þau kjör sem við getum boðið viðskiptavinum og hefur einnig lækkað arðsemi bankanna á undanförnum árum.“
Viljum vera til fyrirmyndar
Spurður út í áherslur varðandi umhverfis- og félagslega þætti (ESG) segir hann að hann telji það vera mikilvægt fyrir fyrirtæki eins og Kviku að vera til fyrirmyndir þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð, stjórnarháttum og umhverfismálum.
„Ég hef hins vegar áhyggjur af því að þessi málaflokkur sé að lenda í vandræðum vegna þess að aftur er verið að smíða mjög flókið og kostnaðarsamt regluverk, sem ég held að margir hafi takmarkaða trú á að muni skila tilætluðum árangri. En vonandi rötum við á réttu brautina því það deila fáir um mikilvægi þess að rétt sé haldið á spöðunum í þessum efnum,“ segir Ármann.
Spennandi að starfa á fjármálamarkaði
Ármann segir þrátt fyrir allt áhugavert og spennandi að starfa á fjármálamarkaðnum.
„Við sjáum ýmis tækifæri til að byggja enn frekar upp okkar starfsemi. Ég lít aðeins á það sem hlutverk Kviku að sýna frumkvæði á bankamarkaði, auka samkeppni og gera hluti aðeins öðruvísi en stóru bankarnir. Við erum að nýta fjártækni til að geta keppt við bankana á innlánamarkaði og nú fljótlega á íbúðalánamarkaði. Þá reynum við að nýta sérstöðu okkar til að bjóða fyrirtækjum og fjárfestum aðra þjónustu og afurðir en aðrir. Það geta til dæmis verið fjárfestingakostir í Bretlandi, millilagsfjármögnun til fyrirtækja og margt annað,“ segir Ármann að lokum.