Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds stendur á tímamótum. Eftir mikla þróunarvinnu á leiknum Starborne: Frontiers er komið að því að skala markaðssetningu á leiknum upp enn frekar. Til þess að svo megi verða hyggst félagið sækja sér 700-800 milljónir íslenskra króna til að fjármagna vöxtinn. Félagið fundar um þessar mundir með fagfjárfestum vegna fjármögnunar og það liggur fyrir að lykilstjórnendur og stjórn félagsins munu taka þátt í henni.
Blaðamaður ViðskiptaMoggans settist af þessu tilefni niður með þeim Eggerti Árna Gíslasyni stjórnarformanni og Stefáni Gunnarssyni, forstjóra Solid Clouds.
„Á miðju ári 2021 lögðum við upp í þá vegferð að framleiða Starborne: Frontiers. Við erum núna komnir á þann stað að við erum farnir úr þróunarfasa og byrjaðir að skala vöruna upp. Núna búum við yfir gögnum sem sýna að dæmið lítur afar vel út,“ segir Stefán.
Þeir segja viðtökur Starborne: Frontiers hafa verið mjög góðar.
„Leikurinn hefur verið að skora hátt í einkunnum í Google- og Apple- snjalltækjabúðunum og hann var tilnefndur til Norrænu tölvuleikjaverðlaunanna sem besti tölvuleikur fyrir snjalltæki í ár. Hátt í þúsund leikir voru skoðaðir af dómnefndinni,“ segir Eggert.
Fjöldi spilara og tekjur af hverjum spilara Starborne: Frontiers hafa vaxið stöðugt á þessu ári og í október fóru tekjur í fyrsta skipti yfir 100 þúsund bandaríkjadali sem er um 50% aukning á tekjum milli mánaða. Auk þess náði leikurinn nýjum hæðum hvað varðar hlutfall spilara sem kaupa á hverjum degi og einnig í tekjum af hverjum spilara á dag en þær fóru úr 60 sentum í janúar 2024 upp í 1,5 dali í október 2024 sem telst mjög gott.
„Við sjáum það betur og betur á hverjum degi hvað leikurinn er orðinn sterkur í öllum lykiltekjumælikvörðum,“ segir Stefán.
Með athygli Apple og Google
„„Business case-ið“ snýst um það að við erum að búa til vél, sem er leikurinn Starborne: Frontiers og aðalhráefnið sem fer í vélina eru auglýsingar. Fyrir hvern auglýsingadollar sem er settur inn stefnum við á að fá 2-3 til baka á tilteknu tímabili, auk þess að geta sett sem flesta auglýsingadollara inn og samhliða haldið svipuðum hlutföllum á tekjum sem við fáum til baka,“ bætir Stefán við.
Það sé þó ekki endilega einfalt.
„Til þess að ná árangri þarf leikurinn að vera lifandi, hann þarf að geta haldið mjög lengi í spilara. Lifandi þjónusta (life services) virkar eins og smurning á vélina, að það sé eitthvað að gerast, einhver keppni innan leiksins, sérstakar hetjur á tilboðum og svo framvegis, sem brýtur hversdagsleikann upp, og það þarf eitthvað að vera í gangi í hverjum mánuði,“ segir Stefán.
Hvað gögnin varðar þurfi þeir að geta horft nokkur ár fram í tímann.
„Þau gögn sem við erum komnir með eru að haga sér í samræmi við okkar áætlanir. Við finnum það að leikurinn er að vinna á í hverjum mánuði og við erum að nálgast þann stað að við getum ímyndað okkur að leikurinn sé „top tier performer“.“
Eggert bendir á að bæði Apple og Google hafi nálgast Solid Clouds sem renni stoðum undir það. Þau hafi vakið sérstaka athygli á leiknum í farsímabúðunum (featuring).
„Það að fá athygli frá Apple og að þeir sýni leikinn í 109 löndum er alls ekki sjálfsagt. Þeir gera það eftir að hafa skoðað sín innri gögn, hvernig leikurinn er að haga sér í þeirra kerfi, og síðan hafa þeir samband við okkur. Það sama á við um Google. Það eru fæstir leikir sem fá svona virkt samtal eins og við höfum við bæði þessi félög. Við erum komnir á þann stað að þegar eitthvað skemmtilegt er að gerast hjá okkur þá höfum við aðgang inn í þessi félög, og við erum að vinna í að koma Steam, sem er stærsta efnisveita heims fyrir leiki, á sama stað. Við erum að vonast til þess að fá sérstaka athygli í búðum tæknirisanna 4-8 sinnum á ári,“ segir Eggert og bætir við að þegar þeir fengu athygli frá Apple hafi notendum fjölgað mikið.
„Bara vegna þess að við vorum settir fremstir í hilluna í búðinni. Við fáum yfirleitt um það bil helming af auglýsingakostnaði til baka í formi tekna á fyrstu 30 dögunum, en ef vel tekst til með platformana þá getur þetta verið að keyrast upp í 60-70% á fyrstu 30 dögunum.“
„Í apríl hófum við að auglýsa leikinn í meira mæli en áður til þess að ná í notendur en fyrir þann tíma vorum við aðallega að athuga með viðbrögð spilara við leiknum. Á þessu ári höfum við fyrst og fremst verið að skoða hvernig auglýsingakostnaður er að skila sér til baka í formi tekna, en það er aðalatriðið hjá okkur og að safna gögnum því tengdum til þess að átta okkur á því hvað við getum verið að setja mikla peninga í auglýsingar hverju sinni og hversu miklar tekjur koma til baka, ekki síst til þess að átta okkur á því hvernig við þurfum að fjármagna okkur til þess að stíga næstu skref,“ segir Stefán.
Tekjur af auglýsingakostnaði, á ensku Return on Ad Spend (ROAS), virka þannig að félagið fjárfestir í nýjum notendum með auglýsingum, en á nokkrum árum skilar sá kostnaður sér til baka í formi tekna. ROAS er lykilmælikvarði fyrir félagið, enda er breytilegur kostnaður við leiki fyrir snjalltæki (mobile games) á borð við þann sem Solid Clouds framleiðir að mestu leyti bundinn í auglýsingum og er sterk fylgni á milli auglýsinga og þeirra tekna sem leikurinn skilar.
Eggert segir það geta verið krefjandi að skýra viðskiptalíkanið út fyrir fjárfestum sökum þess hve lítt þekkt það sé meðal fjárfesta hér á landi.
„Ég líki þessu stundum saman við það þegar garðyrkjumaður setur fræ ofan í jörðina. Þú sérð ekki þegar fræin eru að spíra í jörðinni, hvernig þau haga sér, en núna eru spírurnar að koma upp og styttist í góða uppskeru,“ segir hann.
„Samkvæmt IFRS-reiknisskilastöðlum ber að gjaldfæra auglýsingar þegar þær eru birtar. Í hefðbundnum fyrirtækjum er það eðlilegt enda er auglýsingakostnaðurinn oftast lágt hlutfall af rekstrarkostnaði þeirra. Hjá Solid Clouds er þessu öðruvísi farið þar sem auglýsingakostnaður verður langstærsti kostnaðarliður fyrirtækisins þegar fram í sækir. Með því að gjaldfæra auglýsingar strax eins og vera ber skv. IFRS-staðlinum myndast miklar óefnislegar eignir í félaginu sem ekki koma fram í rekstarreikningi þess. Því er mikilvægt að skýrsla stjórnar dragi þessar óefnislegu eignir fram sem eru grunnur að tekjumyndun félagsins inn í framtíðina og gefi þannig glögga mynd af virði félagsins svo fjárfestar átti sig betur á virði þess,“ segir Eggert.
Í útboðinu 2021 ætluðuð þið ykkur að vera fyrr komnir á þennan stað, hvað varð til þess að þetta tafðist?
„Já, það er rétt, við erum metnaðarfullir og vorum aðeins of bjartsýnir þegar við fórum á markaðinn, en þetta varð meiri þróunarvinna en við sáum fyrir. Á móti erum við núna komnir með virkilega flotta vöru sem virkar,“ segir Eggert.
Nú séu þeir brattir og spenntir fyrir næsta fasa, sem er að sækja fjármagn til þess að skala leikinn upp og keyra upp tekjur enn frekar, en Solid-teymið kveðst sannfært um að það sé með vinningsvöru í höndunum.