Það virðist ekki vera á allra vitorði, enda hefur bankinn ekki endilega auglýst það mikið, en árið 2019 hóf Arion banki að bjóða völdum hópi viðskiptavina upp á sérþjónustu undir merkjum Premíu.
Jóhann Möller er framkvæmdastjóri markaða hjá bankanum og segir hann Premíu hafa verið í stöðugri þróun undanfarin fimm ár og sé núna komið í þá mynd að byggjast á þremur stoðum: „Við sáum að það var vöntun á sérstakri þjónustu fyrir umsvifameiri viðskiptavini bankans, sem er það sem Premía gengur út á, og fellur þar meðal annars undir almenn bankaþjónusta og einkabankaþjónustan okkar sem einnig var í boði hjá forvera okkar Kaupþingi og Búnaðarbankanum þar á undan. Nýjasti þjónustustraumurinn sem fellur undir Premíu þjónustu er Premía fjárstýring, sem úti í heimi er kallað „wealth management“.
Jóhann segir að til að efla Premíu enn frekar hafi bankinn m.a. fjárfest í nýju eignastýringarkerfi og eins séu kaupin á eignastýringarráðgjöfinni Arngrímsson Advisors í september, sem unnið er að því að ljúka þessa dagana, mikilvægur liður í að renna styrkari stoðum undir Premíu þjónustuna.
Þegar Premía hóf göngu sína var þjónustan ætluð viðskiptavinum með 20 milljónir króna í umsvifum hjá bankanum, en sú upphæð hefur núna verið hækkuð í 40 milljónir. Undir umsvif falla til dæmis innlán og eign í verðbréfum og sjóðum. Jóhann segir mörkin hærri fyrir einkabankaþjónustu, þar sem viðskiptavinum er úthlutaður sérstakur viðskiptastjóri, og enn hærri fyrir Premíu fjárstýringu og er þá jafnvel tekið mið af eignasöfnum og fyrirtækjaeign heilu fjölskyldnanna.
Jóhann segir erfitt að segja til um það með mikilli nákvæmni hve stór hópur kann að fullnægja skilyrðum Premíu en bankinn áætlar að þjónustan geti átt erindi við um 5 til 10% landsmanna, hið minnsta.
Sérsniðin banka- og fjárfestingarþjónusta fyrir sterkefnaða einstaklinga á sér langa sögu hjá milljónaþjóðum og Jóhann játar að íslenski markaðurinn sé á mörkum þess að vera nógu stór til að bera sérhæfða þjónustu af þessu tagi. „En á undanförnum árum og áratugum hefur fjölgað í þessum hópi og birtast t.d. reglulega fréttir af sölu íslenskra fyrirtækja fyrir hundruð milljóna og jafnvel milljarða króna sem skila eigendum og stofnendum góðum hagnaði,“ útskýrir hann. „Hinir íslensku bankarnir hafa vissulega einnig reynt að sinna þessum hópi vel en að okkar mati felst nýlunda í því hvernig Premía tekur þjónustuna upp á næsta stig og þá ekki síst með því að bæta við fjárstýringu.“
Sá hópur sem Arion er á höttunum eftir væri velkominn í bankaviðskipti hvar sem er í Evrópu og er t.d. í Sviss varla hægt að þverfóta fyrir fjármálastofnunum sem sérhæfa sig í að sinna milljóna- og milljarðamæringum. Um dýrmætan kúnnahóp er að ræða og þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá hvernig mjög tekjuháir og eignamiklir einstaklingar og fjölskyldur geta verið hvalreki fyrir fjármálafyrirtæki. Segir Jóhann Premíu vera að einhverju leyti í samkeppni við banka bæði í Skandinavíu og á meginlandi Evrópu, en að sérstaða Premíu felist í vandaðri, sveigjanlegri og persónulegri þjónustu þar sem haldið er enn betur utan um viðskiptavininn og hans þarfir: „Undir Premíu fellur fjölbreytt fjármálaþjónusta, þar á meðal persónusniðnar tryggingar og lífeyrissparnaður, og tölum við um 360° þjónustu og yfirsýn fyrir viðskiptavininn. Hann getur treyst því að fjármálin eru í góðum höndum og að hann njóti ákveðins forgangs hjá bankanum.“
Að mörgu leyti er skörun á milli Premíu og almennrar starfsemi bankans sem hefur þegar á að skipa sérfræðingum í fjárfestingum, tryggingamálum o.s.frv. Þá hefur bankinn vitaskuld góða yfirsýn yfir umsvif eigin viðskiptavina og getur – án þess að þurfa endilega að markaðssetja það sérstaklega – komið auga á hverjir gætu átt erindi við Premíu. Jóhann segir að það megi líta svo á að þessi viðbót við þjónustuframboðið sé hluti af lengri vegferð sem hófst jafnvel fyrir áratugum þegar viðskiptavinur opnaði ósköp venjulegan reikning hjá bankanum. „Við viljum viðhalda og byggja ofan á þetta langtímasamband, sem jafnvel getur erfst á milli kynslóða.“
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 25. nóvember.