Sameina kraftana á Vestfjörðum

Erik Figureras Torras forstjóri Mílu færði Birni Davíðssyni framkvæmdastjóra Snerpu …
Erik Figureras Torras forstjóri Mílu færði Birni Davíðssyni framkvæmdastjóra Snerpu ljósmynd að gjöf í tilefni 30 ára afmælis Snerpu. Ljósmynd/Aðsend

Fjarskiptafyrirtækin Snerpa og Míla hafa skrifað undir samning um aðgang að heimtaugum á Vestfjörðum á afmælisdegi Snerpu sem er í dag, en fyrirtækið er nú 30 ára. Kemur þetta fram í fréttatilkynningu frá Mílu sem mun á næstunni hefja sölu á ljósleiðarasamböndum til fyrirtækja og einstaklinga á þjónustusvæði Snerpu á Vestfjörðum.

„Samningurinn kallar á að sett séu upp sambönd og búnaður á hverjum þéttbýlisstað fyrir sig og í flestum tilfellum þá einnig [í] nærsveit[um]. Á næstu dögum stendur til að þjónusta verði í boði í Bolungarvík og munu svo nýir staðir bætast inn jafnt og þétt og verður það kynnt af Mílu jafnóðum til fjarskiptafyrirtækja sem sjá um að veita notendum þjónustu,“ segir svo í tilkynningunni.

Skilar sér í bættri samkeppni

Vestfirðingar þekki Snerpu vel sem veiti alhliða tölvu- og netþjónustu víða um Vestfirði. Fyrirtækið hafi undanfarin ár lagt ljósleiðara á norðanverðum Vestfjörðum sem Míla hafi nú samið um aðgang að.

„Snerpa sér samninginn sem tækifæri til aukinnar nýtingar á ljósheimtaugakerfi sínu og jafnframt aukins vals fyrir neytendur. Aukið val skilar sér í bættri samkeppni sem eykur hag Vestfirðinga,“ er haft eftir Birni Davíðssyni framkvæmdastjóri Snerpu í tilkynningunni.

„Forstjóri Mílu, Erik Figueras Torras, sótti forstjóra Snerpu, Björn Davíðsson, heim í dag af þessu tilefni og færði Snerpu að gjöf mynd af fjarskiptamastri Mílu á Patreksfirði en fyrirtækin hafa átt í samstarfi um áratugaskeið við að veita Vestfirðingum fjarskiptaþjónustu bæði til sjós og lands,“ segir í tilkynningunni þar sem enn fremur er vitnað í Torras:

„Það er okkur mikilvægt að tryggja að landsmenn hafi aðgang að háhraðanettengingum. Öflugar nettengingar eru lykilþáttur í samkeppnishæfni þjóða, efla atvinnulíf, opna á ný tækifæri og búa til svigrúm til nýsköpunar,“ segir Míluforstjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK