Þingkosningar á Írlandi verða haldnar á föstudaginn nk. og hefur kosningabaráttan snúist að miklu leyti um hvernig flokkarnir hyggjast eyða 14 milljörðum evra (um 2 þúsund milljarðar ISK) sem evrópskur dómstóll dæmdi bandaríska tæknirisann Apple til að greiða írska ríkissjóðnum vegna ógreiddra skatta.
Að sögn BBC úrskurðaði Hæstiréttur Evrópu að Apple hefði notið góðs af ólöglegum skattaívilnunum á Írlandi og keppast flokkarnir við að gefa ýmis loforð um hvernig eigi að nota peningana. Helst eru það loforð um félagslegt húsnæði og að bæta innviði landsins, sem margir hverjir eru að hruni komnir.
Stærsti flokkur Írlands um þessar mundir, Fianna Fail, hefur sagt að hann muni úthluta um 4 milljörðum evra í félagslegt og ódýrt húsnæði.
Sinn Féin, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, ætlar að ganga enn lengra og segist ætla að setja um 7,6 milljarða evra í félagslegt og ódýrt húsnæði.