Soffía Eydís Björgvinsdóttir, lögmaður og eigandi KPMG Law, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að Vestfirðir leggi sitt af mörkum þegar kemur að greiðslum í ríkissjóð og það fari vaxandi ár frá ári. Það sem þeir fái til baka sé ekki að aukast með sama hætti.
Soffía er ásamt teymi frá KPMG höfundur skýrslu um samfélagsspor Vestfjarða sem kynnt var undir yfirskriftinni „Vestfirska efnahagsævintýrið“ á fundi Innviðafélags Vestfjarða á Patreksfirði í gær. „Vestfirðingar eru sannarlega að leggja sitt af mörkum þegar horft er til efnahagslegra verðmæta sem verða til fyrir vestan,“ segir Soffía.
Samfélagsspor er mismunur á milli greiddra skatta og annarra gjalda til ríkisins og framlaga frá ríkissjóði vegna kostnaðar af sameiginlegri þjónustu á svæðinu.
Samfélagsspor landshlutans var 4,1 milljarður árið 2019 og verður samkvæmt spánni 7,6 ma. á þessu ári. Árið 2028 verður samfélagssporið 14,2 ma. kr. Á árunum 2019-2023 greiddi landshlutinn 60,4 ma. til ríkisins en fékk 34,9 ma. frá því. Samfélagssporið er því samtals 25,5 ma. á þessu árabili.
Íbúar Vestfjarða voru 6.913 árið 2019 en 7.099 í lok árs 2023. Samfélagssporið óx úr 1,5 milljónum króna á íbúa árið 2019 upp í 2,1 mkr. árið 2023.
Spurð hvað teljist sanngjarnt samfélagsspor segir Soffía að það sé annarra að svara því en tölurnar sýni að spor Vestfjarða dugi vel og meira til fyrir þeim kostnaði sem af landsfjórðungnum hlýst í ríkisbókhaldinu. „Samkvæmt okkar könnun hafa vegaframkvæmdir t.d. ekki aukist í takt við aukin umsvif í landshlutanum. Það er hægt að horfa á niðurstöður skýrslunnar frá ýmsum sjónarhornum en niðurstaðan er að Vestfirðingar eru ekki byrði á íslenska ríkiskassanum.“
Hún segir að skýrslan sýni svart á hvítu að störfin á Vestfjörðum skili æ meiri verðmætum. Þar skiptir vaxandi starfsemi fiskeldisfyrirtækja og Kerecis miklu máli og ruðningsáhrif vegna þeirra. Spurð að því hvernig skýrslan muni nýtast segir Soffía að hún hjálpi hagsmunaaðilum að setja hluti í ákveðið samhengi og væntanlega til að færa rök fyrir aukinni fjárfestingu í innviðum.