Erlend netverslun landsmanna hefur aldrei verið meiri en í október, en hún nam samtals 5 milljörðum króna og tvöfaldaðist frá því á sama tíma í fyrra. Gert er ráð fyrir að netverslun á þessu ári muni enda í 45 milljörðum.
Þetta er í fyrsta skiptið sem netverslun nær því að fara yfir 5 milljarða króna múrinn.
Aukningin milli ára kemur mest öll vegna gríðarlegs vaxtar á vörum sem sendur er frá Eistlandi. Var verðmæti þeirra 2,46 milljarðar í október, en í sama mánuði í fyrra voru vörur úr netverslun frá Eistlandi upp á aðeins 5-6 milljónir.
Klara Símonardóttir, forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar, segir í samtali við mbl.is að ekki hafi fengist staðfesting á því hvað er á bak við þennan mikla vöxt frá Eistlandi, en hins vegar hafi hún fengið ábendingar um að bæði Aliexpress og Temu, tvær risastórar kínverskar netverslanir, hafi sett upp dreifingarmiðstöðvar í Eistlandi fyrr á þessu ári.
Þar sem rannsóknarsetrið vinnur upp úr tollgögnum er það upprunaland sendingarinnar sem kemur fram, en ekki endilega upprunaland vörunnar sjálfrar.
Klara bendir á að í október í fyrra hafi netverslun ekki náð 2,5 milljörðum og í nóvember í fyrra, sem var stærsti mánuður ársins, hafi hún verið rétt yfir 3 milljörðum. Aukningin núna kemur því svo gott sem öll frá Eistlandi að hennar sögn.
Samkvæmt spá rannsóknarsetursins stefnir í að erlend netverslun á þessu ári verði um 45 milljarðar þegar allir mánuðir hafa verið taldir, en eins og fyrr segir er nóvember oft stærsti mánuðurinn. Helgast það meðal annars af fjölda sérstakra afsláttadaga og að landsmenn eru að hefja kaup á jólagjöfum.
Fataverslun er stærsti vöruflokkurinn í erlendri netverslun eða 1,8 milljarðar í október og er aukning milli ára um 60% í vöruflokknum. Mikil aukning hefur orðið í flokknum byggingavörur en erlend netverslun í október 2023 nam þar rúmum 253 milljónum samanborið við 1,1 milljarð í nýliðnum október.
Hægt er að sjá ítarlegri upplýsingar um erlenda netverslun sem RSV tekur saman á veltan.is