Fjárfestingafélagið Kaldbakur ehf., sem er sjálfstætt félag sem áður hélt utan um fjárfestingar sem voru í eigu Samherja hf., hefur keypt 4 milljónir hluta í Högum hf.
Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Með kaupunum á félagið nú 90 milljónir hluta, eða sem nemur 8,13% í félaginu. Kaldbakur er eftir sem áður fimmti stærsti hluthafinn í Högum og stærsti einkafjárfestirinn, en fjórir lífeyrissjóðir eiga stærri hlut í félaginu.
Tilkynningarskylda er um kaupin þar sem Eiríkur S. Jóhannsson er bæði stjórnarformaður í Högum og forstjóri Kaldbaks.
Hagar er móðurfélag Bónuss, Hagkaupa, Olís, Eldum Rétt, Aðfanga, Banana, Stórkaupa og Zöru.