Hverjir eru fjárfestar?

Baldur Thorlacius framkvæmdastjóri skráninga hjá Nasdaq.
Baldur Thorlacius framkvæmdastjóri skráninga hjá Nasdaq. mbl.is/Kristinn Magnússon

Baldur Thorlacius framkvæmdastjóri skráninga hjá Nasdaq Ísland skrifar:

Nýlega birtu bandarísku samtökin Commonwealth niðurstöðu ítarlegrar rannsóknar á því hvort, og þá við hvaða aðstæður, venjulegt fólk upplifi sig sem fjárfesta (e. investor identity). Við skulum kalla þetta fjárfestaupplifun. Commonwealth er sjálfseignarstofnun sem starfar með það að markmiði að gera öllum kleift að bæta eignastöðu sína og ná fjárhagslegu sjálfstæði. Rannsóknin var m.a. unnin í samstarfi við Nasdaq.

Á undanförnum árum hefur þátttaka almennings á verðbréfamarkaði aukist vestanhafs en ákveðnir hópar hafa setið eftir í þeirri þróun. Nefna samtökin þar sérstaklega einstæðar mæður, fólk af afrískum (e. African American) uppruna og fólk af rómansk-amerískum (e. Latin American) uppruna sem er með lágar eða miðlungsháar tekjur. Er þetta litið alvarlegum augum þar sem þátttaka á verðbréfamarkaði er nefnd sem ein besta leiðin til að ávaxta sparnað og ná þannig fjárhagslegu sjálfstæði.

Í rannsókninni fékk fólk úr þessum hópum ákveðið fjármagn til að spreyta sig á verðbréfamarkaði. Rannsóknin tók eitt ár og á því tímabili voru reglulega gerðar kannanir og tekin viðtöl við þátttakendur til að reyna að átta sig á því hvaða aðgerða væri hægt að grípa til svo verðbréfamarkaðurinn yrði aðgengilegri og myndi gagnast fjölbreyttari hópi fólks.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að fjárfestaupplifunin, þ.e. hvort fólk upplifði að það tilheyrði þessum verðbréfaheimi, skipti algjöru lykilmáli. Með aukinni fjárfestaupplifun leið fólki betur með þátttöku sína, öðlaðist meira sjálfstraust og var líklegra til að leggja meiri áherslu á sparnað og fjárfestingar, sem og að mæla með fjárfestingum. Þetta gat samt tekið langan tíma og algengast var að fjárfestaupplifunin tæki stökk eftir um sex mánuði.

Aukin fræðsla og tengslamyndun lykilatriði

Með þennan lærdóm á bakinu komu skýrsluhöfundar með nokkrar ráðleggingar til okkar sem störfum á fjármálamarkaðnum. Í fyrsta lagi að allt sem gæti ýtt undir fjárfestaupplifun væri „win-win“, í formi ánægðari og fleiri viðskiptavina og aukins jöfnuðar. Það skipti vissulega máli að fá fólk til að taka fyrsta skrefið en að þetta gerðist samt ekki á einni nóttu og því þyrfti að halda áfram að hlúa að nýjum viðskiptavinum.

Þar komi fræðslan sterk inn, en flestir þátttakendur nefndu fræðslu sem eina helstu ástæðu aukinnar fjárfestaupplifunar en skortur á þekkingu var önnur algengasta ástæða þess að fólk upplifði hana ekki. Tengslamyndun gat líka haft jákvæð áhrif, að geta hitt annað fólk sem hafði áhuga á fjárfestingum og spjallað. Ekki samt í of stórum hópum eða á netinu, sem fólki fannst stundum yfirþyrmandi. Þá skiptu fyrirmyndir í öllu markaðsefni líka mjög miklu máli, að fólk sæi fólk eins og sig í auglýsingum og að það væri raunverulega verið að tala til þeirra.

Ég held að við séum á réttri leið hér á Íslandi í þessum málum, en betur má ef duga skal og þá er um að gera að nýta sér þessar niðurstöður og aðrar tillögur sem koma fram í rannsókninni til að fínpússa og bæta.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK