Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka eiginfjárauka á bankana úr 2% í 3%.
Í yfirlýsingu nefndarinnar kemur fram að hækkunin miði að því að fanga betur þá áhættu sem að hagkerfinu stafar vegna stærðar og umfangs kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja.
Jafnframt segir að eiginfjár- og lausafjárstaða kerfislega mikilvægra banka sé sterk og aðgengi að markaðsfjármögnun gott.
Hátt raunvaxtastig samhliða hægari vexti efnahagsumsvifa gæti þó skapað áskoranir fyrir fjármálakerfið á næstu misserum. Þá séu einnig viðsjárverðir tímar á alþjóðavettvangi sem gætu haft ófyrirséð áhrif.
Nefndin ákvað á sama tíma að lækka gildi kerfisáhættuaukans úr 3% í 2%.
Lækkunin byggir á því mati nefndarinnar að kerfisáhætta hafi minnkað frá því að gildi aukans var fyrst ákveðið árið 2016. Ljóst sé að viðnámsþróttur fjármálakerfisins hafi aukist á síðustu árum, sem birtist m.a. í minni breytileika helstu hagstærða þrátt fyrir að ýmis áföll hafi dunið yfir.
Þá segir nefndin að ný þjóðhagsvarúðartæki hafi sannað gildi sitt og umgjörð í kringum viðhald fjármálastöðugleika er nú heilsteyptari en áður.
Nefndin segir að lækkun kerfisáhættuauka samhliða hækkun eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki hafi í för með sér að heildareiginfjárkrafa á kerfislega mikilvægu bankana þrjá verður nánast óbreytt.
Hins vegar muni eiginfjárkrafan lækka á smærri innlánsstofnanir sem ekki teljist kerfislega mikilvægar.