Fasteignafélagið Heimar tilkynnti í gær að afkomuspá félagsins fyrir árið 2024 yrði hærri en áður var tilkynnt. Félagið gerði áður ráð fyrir leigutekjum upp á 13,7-13,9 milljarða og EBITDA upp á 9,8-10 milljarða.
Eftir uppfærða áætlun er gert ráð fyrir að leigutekjur nemi 13,9-14,1 milljarði og EBITDA 9,95-10,15 milljörðum.
Betri nýting á leigurýmum og minni kostnaður vegna rekstrar og viðhalds skýrir aukninguna.
Stutt er síðan félagið kynnti skipulagsbreytingar og breytingar á skipuriti þar sem sjálfbærni og rekstur í fasteignum var lagt niður sem stoðsvið. Á þeim tíma nefndi forstjóri félagsins ástæðuna einkum þá að auka hagkvæmni og bæta þjónustu við viðskiptavini.
Áætlunin nú er aukin um 200 milljónir í leigutekjum og 150 milljónir í EBITDA. Stutt er til áramóta en félagið er greinilega með mjög öfluga áætlanagerð því breytingin nemur einungis 1,5% í EBITDA.
Greinin birtist í ViðskiptaMogganum sem kom út í morgun.