Innherji: Skattar, ESB og neyðarlög á Seðlabankann?

Samfylkingin gleðst innilega enda í lykilstöðu að hækka skatta.
Samfylkingin gleðst innilega enda í lykilstöðu að hækka skatta. mbl.is/Eyþór

Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.

Nú í kjölfar kosninga reyna þrír flokkar að ná saman þar sem loforðin eru hærri skattar í boði Samfylkingarinnar og skýr krafa Flokks fólksins um að skerða lífeyrisréttindi fólks með því að taka úr lífeyrissjóðunum 90 milljarða á ári. Þetta ásamt kröfu Viðreisnar um inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru.

Það verður áhugavert að sjá Kristrúnu í væntanlegu embætti forsætisráðherra taka á því að vera með Ingu Sæland hjá Flokki fólksins og Þorgerði Katrínu hjá Viðreisn í því að leysa sameiginlega úr efnahagsmálum þjóðarinnar þegar sýn þeirra er mjög ólík á flest þau verkefni sem þarf að vinna.

Óumdeilt þá eru þetta þrjár sterkar konur en þær stýra allar flokkum sínum í gegnum persónu sína og ímynd en ekki endilega á fólkinu sem myndar flokkana, enda aukaleikarar að mati Kristrúnar.

Í stefnuskrá Flokks fólksins kemur fram að útgerðin þurfi að greiða fullt gjald fyrir auðlindina, óskilgreint reyndar hvað fullt gjald sé. Mögulega er það allur hagnaður í greininni. Ekki vill flokkurinn einkarekna fjölmiðla, enda á móti slíkum styrkjum en segir ekkert um milljarðana sem greiddir eru í RÚV eða tiltekur styrkina til stjórnmálaflokkanna. Ekki vill flokkurinn selja eignarhlut ríkisins í bönkunum en vill hins vegar draga úr skriffinnsku í kringum lítil fyrirtæki og einyrkja.

Hvernig fer það í Kristrúnu hjá Samfylkingu, sem hefur krafist þess að loka ehf.-gatinu? Gati sem reyndar er ekki gat því það er eðlileg skattlagning og hluti af fyrirtækjaumhverfi landsins. Það að bera saman við Norðurlöndin, eins og Samfylkingin hefur gert, er óljóst í besta falli og vonlaus samanburður í raun því mun fleiri breytur skipta þar máli. Norðurlöndin skipta kannski engu máli lengur því nú er það Evrópusambandið.

Það má samt gleðjast yfir því að Vinstri-grænir, Sósíalistar og Píratar eru horfnir af þingi. Það er kannski þess virði að hafa farið í þennan leiðangur bara til að ná því fram, verst er þó að skattgreiðendur þurfi að greiða fjármuni til Sósíalista og Pírata þótt þeim hafi verið hafnað. Vinstri-grænir þurfa hins vegar að finna sér aðra vinnuveitendur en skattgreiðendur.

Seðlabankinn hefur ítrekað haldið því fram að öll stjórnmálaleg óvissa sé reiknuð inn í það vaxtalækkunarferli sem er hafið. Ólíklegt er að bankinn, með Ásgeir Jónsson í fararbroddi, hafi reiknað inn þá óvissuþætti sem þessir þrír flokkar koma með inn í efnahagslíf þjóðarinnar.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, oddviti hjá Flokki fólksins, ætlar hvort eð er að setja neyðarlög á bankann, nokkuð sem hún boðaði í kosningabaráttunni stolt, þannig að áætlanir Ásgeirs skipta kannski litlu.

Margt af þessu hljómar auðvitað ótrúverðugt en byggist á orðum og stefnumálum flokkanna sem nú freista þess að ná saman um stjórn landsins. Var þetta virkilega það sem kjósendur kölluðu eftir?

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK