Stefna á 50 þúsund únsa framleiðslu

Ellert Arnarson, fjármálastjóri Amaroq Minerals, segir að gullframleiðsla fyrirtækisins sé …
Ellert Arnarson, fjármálastjóri Amaroq Minerals, segir að gullframleiðsla fyrirtækisins sé virkilega lítill hluti af alheimsmarkaðinum. mbl.is/Árni Sæberg

Auðlindafyrirtækið Amaroq Minerals tilkynnti í síðustu viku að fyrirtækinu hefði tekist það áætlunarverk sitt að framleiða fyrsta gullið á árinu og sala á því geti því hafist hvað úr hverju.

Í lok þriðja ársfjórðungs var félagið með 26 milljónir kanadadala, um 2,6 milljarða króna, í lausu fé sem samanstóð af handbæru fé og óádregnum lánalínum að frádregnum viðskiptaskuldum. Staðan í lok júní nam 62,2 milljónum kanadadala (um 6,1 milljarði króna).

Í júlí síðastliðnum samdi fyrirtækið um helstu skilmála nýrrar fjármögnunar við Landsbankann, þrjár lánaheimildir að andvirði 35 milljóna bandaríkjadala (tæpra 5 milljarða króna). Hin nýja fjármögnun mun tryggja verulega auknar lánsheimildir, ásamt framlengingu á núverandi lánalínum.

Ellert Arnarson, fjármálastjóri Amaroq Minerals, segir að félagið sé nú að hefja tekjumyndun í kjölfar fyrstu framleiðslu á gulli. Þegar fyrirtækið hafi steypt ákveðið magn af gullstöngum séu þær fluttar til Zürich í Sviss til fullvinnslu og síðan seldar til félagsins Auramet samkvæmt sölusamningi, en Auramet hefur skuldbundið sig til að kaupa allt gull sem félagið framleiðir í Nalunaq á Grænlandi.

„Á næsta ári horfum við til þess að byggja framleiðsluna statt og stöðugt úr um 50% af getunni upp í fulla framleiðslugetu. Full framleiðsla er í kringum 300 tonn af efni á dag og við stefnum á að verða komin þangað í lok næsta árs,“ segir Ellert. Hann nefnir að það séu tvær aðrar stærðir sem stýra tekjumynduninni, en þær eru hlutfall gulls sem unnið er úr efninu (e. recovery) ásamt styrkleika gullsins í efninu (e. grade), sem gjarnan er mældur í grömmum per tonn.

Ársframleiðsla geti numið um 50 þúsund únsum

„Við gerum ráð fyrir að það hlutfall gulls sem við vinnum úr efninu aukist eftir því sem líður á árið á meðan við stillum framleiðsluna af, og á öðrum ársfjórðungi setjum við upp svokallaða flotrás (e. flotation circuit) sem getur aukið hlutfallið um 65-70% upp í allt að 94%. Önnur stærð sem skiptir höfuðmáli er styrkleiki gulls í efninu, sem við gerum ráð fyrir að verði á bilinu 12-16 grömm per tonn.“

Spurður um tekjuáætlanir félagsins segir Ellert að til viðmiðunar, miðað við fulla framleiðslu, 94% vinnsluhlutfall og styrkleika upp á 16 grömm per tonn, sé framleiðsla á 12 mánaða grunni um það bil 50 þúsund únsur af gulli. Miðað við gullverð í dag, sem er á bilinu 2.600-2.700 bandaríkjadollarar per únsu, þýðir það 130-140 milljónir bandaríkjadollara í tekjur (um 18-19,4 milljarðar króna).

Gullframleiðsla Amaroq er mjög lítill hluti af alheimsmarkaðinum.

„Það sem helst stýrir gullverði eru þjóðhagfræðilegir þættir á borð við framboð og eftirspurn, styrkur dollarans, vextir og verðbólga og annað í þeim dúr. Við stýrum því náttúrulega ekki en það sem við reynum að gera er að framleiða á sem lægstum kostnaðargrunni. Í Nalunaq stefnum við á árlegan kostnað upp á um 50-60 milljónir dollara, sem í fullri framleiðslu þýðir að kostnaður per únsu er um það bil 1.000-1.200 bandaríkjadollarar, en það er afar hagstætt miðað við núverandi gullverð. Miðað við fulla framleiðslu og gullverð í dag þýðir frjálst sjóðstreymi upp á 70-80 milljónir bandaríkjadollara (um 10-11 milljarða króna), sem er þá hægt að nýta til frekari rannsókna á leyfum okkar í Grænlandi, arðgreiðslna eða annarra fjárfestinga,“ segir Ellert.

Spurður út í heildarfjárfestingu félagsins segir Ellert að stærsti hlutinn í fyrsta fasa sé að endurgera námuna.

„Þegar Amaroq eignaðist Nalunaq var búið að setja um 200 milljóna dollara fjárfestingu í námuna og nærliggjandi innviði. Við höfum lagt til um 110 milljónir dollara til að byggja vinnsluna, endurgera námuna og í aðra innviði, til viðbótar við fjárfestingu í rannsóknum og borunum á öðrum svæðum,“ segir Ellert.

Stefna á skráningu á aðalmarkað í London

Amaroq Minerals tilkynnti nú í morgun að hlutafjárútboði félagsins, sem tilkynnt var um í gær sé nú lokið og var ríflega 60% umframeftirspurn eftir hlutum í félaginu.

Alls verður 32.034.664 nýjum hlutum úthlutað til núverandi og nýrra hluthafa, á genginu 151 króna (C$1,53, 86 pence samkvæmt dagslokagengi þann 2. desember 2024) á hvern hlut. Söluandvirði hækkunarinnar nemur um 4,8 milljörðum íslenskra króna (C$48,9 milljónir, £27.5 milljónir). Söluandvirði útboðsins, umfram áður fyrirhugaða 3,5 milljarða, verður varið til að hraða vexti félagsins innan eignasafns þess í Grænlandi sem og að styrkja enn frekar efnahagsreikning félagsins.

Í tilkynningu félagsins í gær kom fram að fyrirtækið stefni á mögulega skráningu á aðalmarkað í London.

Greinin birtist í heild sinni í ViðskiptaMogganum sem kom út í morgun.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK