Þeir bestu sameini krafta sína

Árni Sigurðsson forstjóri Marels og Brian Deck forstjóri JBT.
Árni Sigurðsson forstjóri Marels og Brian Deck forstjóri JBT. Ljósmynd/Samsett

„Áhugi okkar á Marel teygir sig mörg ár aftur í tímann. Við höfum hist reglulega úti á markaðnum og oft má finna tækjabúnað frá báðum fyrirtækjum í verksmiðjum viðskiptavina. Samskiptin hafa líka alltaf verið góð. Vöruframboð JBT og Marel fellur vel saman og sameinað fyrirtæki mun geta veitt viðskiptavinum frábæra þjónustu. Ég hef alltaf talið að ef tækifæri byðist til að gera eitthvað markvert þá myndu þessi tvö félög passa mjög vel saman. Í slíkum samruna myndu þeir bestu á markaðnum sameina krafta sína til þess að bæta þjónustu við viðskiptavini og efla hag starfsmanna, hluthafa og annarra hagsmunaaðila,“ segir Brian Deck forstjóri JBT í samtali við Morgunblaðið spurður um tildrög þess að JBT lagði fram valfrjálst yfirtökutilboð í Marel í júní á þessu ári.
Tilboðið rennur út 20. desember nk. og er háð samþykki hluthafa JBT, eftirlitsaðila og 90% hluthafa Marel.

Í síðustu viku sagði JBT frá því að samþykki frá öllum hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöldum vegna samrunans væri í höfn. Fyrr í sumar lá fyrir 99% samþykki hluthafafundar JBT. Það eina sem eftir stendur er samþykki hluthafa Marel.

Hluthafar Marel munu eiga um 38% hlutafjár sameinaðs félags eftir viðskiptin.

Mikilvægt að fá innsýn

Árni Sigurðsson forstjóri Marels segir í samtali við Morgunblaðið að mikilvægt sé fyrir alla hlutaðeigandi aðila að fá innsýn í afstöðu hluthafa Marels eins fljótt og auðið er áður en fresturinn renni út. Það muni tryggja að efndir tilboðsins gangi snurðulaust fyrir sig eða gefi JBT í það minnsta möguleika á að óska eftir heimild Fjármálaeftirlitsins til að framlengja tilboðið ef 90% hluthafa hafi ekki gefið samþykki fyrir tilskilinn tíma. „Ef tímalínan með að kaupin gangi í gegn 3. janúar 2025 á að standast eins og lagt er upp með, þá er ekki skynsamlegt að bíða fram á síðustu stundu,“ útskýrir Árni.

JBT er að sögn Brian mjög umhugað um að varðveita arfleifð Marel og starfsemina á Íslandi. Sameinað félag mun heita JBT Marel Corporation og mun félagið starfrækja evrópskar höfuðstöðvar og tækniþróunarsetur í Garðabæ.

Brian segir aðspurður að sameinað félag verði skráð á hlutabréfamarkað bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi. „Stjórn og hluthafar hafa lagt áherslu á áframhaldandi íslenska skráningu. Hluthafar Marel eru sterkur og tryggur gæðahópur sem hefur staðið þétt við bakið á félaginu um áratuga skeið. Því er mikilvægt að vera áfram skráð á Íslandi.“

Enn í hluthafahópnum

Árni bendir á að sumir hluthafar sem tóku þátt í frumútboði með hlutabréf í Marel fyrir 30 árum séu enn í hluthafahópnum. Þeir hafi stutt fyrirtækið með ráðum og dáð öll þessi ár og hjálpað því að stækka með ytri vexti. „Það er mikilvægt fyrir okkur að hafa góða og trausta eigendur, hér eftir sem hingað til.“

Spurður nánar út í ferlið síðan tilboð var lagt fram og hvort það hafi gengið vel og verið í samræmi við væntingar segist Brian alltaf hafa búist við að það myndi taka allt árið 2024. „Þetta eru flókin viðskipti – tvö stór, skráð alþjóðleg fyrirtæki sem kröfðust margvíslegra úttekta og samþykkta hjá eftirlitsaðilum í mörgum löndum og landssvæðum. En nú er það allt í höfn. Almennt séð hefur allt gengið samkvæmt áætlun en eins og stundum vill verða í verkefnum af þessu tagi hefur komið upp stöku ergelsi sem hefur ávallt verið leyst farsællega. Smátt og smátt kynntust félögin betur og tilboðinu var breytt á tímabilinu til að koma betur til móts við hluthafa Marel.“

Ekki á sama skala og nú

Spurður um reynslu JBT af samrunum og yfirtökum segir Brian að JBT hafi rétt eins og Marel keypt fjöldann allan af fyrirtækjum í gegnum tíðina. „Við erum mjög vön því að laga okkur að ólíkri fyrirtækjamenningu, en þó ekki á sama skala og nú með Marel,“ segir Brian en um 7.100 vinna hjá Marel í yfir 30 löndum þar af um 700 á Íslandi.
Hjá JBT starfa 5.100 manns við sölu, þjónustu og framleiðslu í fleiri en 25 löndum.

Brian segir að fyrirtækin hafi lagt sérstaklega mikið á sig til að tryggja að menning fyrirtækjanna myndi ekki rekast á. „Við erum meira lík en ólík,“ segir Brian. „Það endurspeglast einna best í því hvernig við hugsum um viðskiptavinina og í ástríðunni sem við höfum fyrir iðnaðinum. Við erum mjög stolt sem fyrirtæki og það speglast í okkar hlutverki, sem er að hjálpa til við að fæða heiminn með framúrskarandi þjónustu og tæknilausnum. Þetta er ástríða beggja félaganna. Það er góðs viti þegar farið er af stað með sameiginlegan tilgang og framtíðarsýn.“

Árni segir að snemma hafi komið í ljós hvernig menningin yrði í sameinuðu fyrirtæki. „Við settum saman teymi frá báðum félögum til að vinna í þessu. Við náðum að skilgreina hvernig bæði JBT og Marel horfa á fyrirtækjamenninguna nú og í framtíðinni. Það mun hjálpa mikið til fram á veginn. Við sjáum skýrt hvað við eigum sameiginlegt og hvað er ólíkt, sem er mjög mikilvægur liður í að samruninn heppnist vel.“

Fellur að styrkleikum

Eitt af því sem kom út úr þessari vinnu var sú skilgreining á Marel að það væri mjög skapandi og framsýnt í nýsköpun og vöruþróun sem falli vel að styrkleikum JBT hvað varðar framúrskarandi rekstur og skilvirkni. „Þarna fáum við það besta úr báðum heimum. Við getum gert eitthvað alveg sérstakt fyrir markaðinn um allan heim,“ segir Brian.

Hann segir að bæði það hvernig JBT og Marel haga sínum viðskiptum og hvaða þekking hafi byggst upp innan fyrirtækjanna sé vísbending um að þau smellpassi saman. Sem dæmi bendir Árni á að að eitt stærsta útgerðarfélag Íslands noti frysti frá JBT og vinnslulínur frá Marel. Það sé vafalítið dæmi um það sem koma skal. „Í vinnslu sem býr til kjúklinganagga fyrir eina stærstu skyndibitakeðju heims getum við til dæmis útvegað mótunarvél (e. Forming), ofn frá Marel og djúpsteikingarlausn og frysti frá JBT. Svo má rétt ímynda sér hver tækifærin geta verið með enn frekari þróun og fjárfestingu í hugbúnaði og stafrænum lausnum, til dæmis við rakningu hráefna í gegnum alla virðiskeðjuna.“

Brian segir að sjálfbærni sé og verði einnig mikilvægur partur af starfseminni. Sameinað félag muni aðstoða viðskiptavini við að minnka matarsóun, úrgang og pakkningar, og ekki síður við að spara orku og vatn.

30-35% í próteini

Um það hvernig félögin passa saman út frá viðskiptalegum forsendum segir Brian að um 30-35% tekna JBT sé í próteinhluta markaðarins en annars sé starfsemin talsvert blönduð og vel dreifð eftir endamörkuðum. Fyrirtækið sé líka talsvert stórt í drykkjarvöru- og ávaxtahluta markaðarins. „Það gerir okkur kleift að fylgja neytandanum hvert sem neytandinn fer. Það er mikill kostur að vera með jafn fjölbreytt vöruúrval og endamarkaði. Það minnkar áhrif af hagsveiflum eftir mismunandi mörkuðum og landsvæðum.”

Árni bendir á að Marel sé á hinn bóginn framar í virðiskeðjunni. Það sé staðsett á frumstigum matvælavinnslu og hafi einblínt á fjóra lykilmarkaði, þ.e. alifuglaiðnað, kjötiðnað, sjávarútveg og markað fyrir gæludýrafóður og plöntuprótein. „Við höfum því orðið fyrir meiri áhrifum af hagsveiflunni síðustu ár, hárri verðbólgu og vaxtastigi. Það hefur haft áhrif á stærri fjárfestingar í matvælaiðnaði. En við sjáum skýr merki þess að markaðsumhverfið sé að snúast við og horfur fari batnandi.”

Brian segir að um allan heim sé matvara sem tilbúin er til neyslu í sókn ásamt nýjungum, sem meðal annars felast í tilbúnum réttum, pakkningum og bragðtegundum. Allt þetta krefjist aukinnar tækni og fjárfestinga og sameinað fyrirtæki ætli að fylgja þeirri þróun. Styrkleikar Marel nýtist vel í þeim efnum. „Þetta er að gerast um allan heim, þó þróunin sé ekki jafn hröð og styttra á veg komin í Suður-Ameríku, Asíu og Miðausturlöndum.“

Þessu til viðbótar mun hið sameinaða félag að sögn Brian einnig bjóða tæknilausnir sem gera núverandi viðskiptavinum félagsins kleift að auka framleiðni í núverandi starfsemi og framleiðslu þeirra. Þannig er veittur stuðningur við sjálfvirkni og sjálfbærni í rekstrinum, sem og stuðla að stöðugleika og bættum rekstrartíma í gegnum ýmis konar þjónustulausnir og varahlutasölu.

Vaxa áfram

Árni og Brian segja aðspurðir að sameinað fyrirtæki muni í framtíðinni halda áfram að vaxa með innri og ytri vexti enda ætli það sér að dýpka og breikka vöruframboðið enn frekar.

Að teknu tilliti til skerðingar vegna umframeftirspurnar, geta hluthafar valið að fá greitt með reiðufé, með hlutum í JBT eða hvoru tveggja. Val á samsetningu endurgjalds takmarkast af því að vegið meðaltal fulls endurgjalds JBT fyrir allt hlutafé í Marel verði 65% í formi afhentra hlutabréfa í JBT og um 35% í formi reiðufjár. Í reiðufé er verðið 3,6 evrur á hlut eða 526 krónur. Skiptigengi á bréfum Marel og JBT miðast við hlutabréfaverð JBT upp á 96,25 Bandaríkjadali sem er töluvert lægra en núverandi hlutabréfaverð JBT eða um 124-125 dalir. Hluthafar Marel munu njóta góðs af því samþykki þeir tilboðið.

Spurður að því hvaða samsetningu JBT kjósi helst að hluthafar velji segir Brian að best væri að hluthafar tækju 65% söluverðs sem hluti í JBT og 35% reiðufé. „Ástæðan fyrir þessari skiptingu var að við vildum fá sem flesta með okkur í áframhaldandi vegferð með sameinuðu fyrirtæki, að hluthafar Marel ættu 38% í sameinuðu félagi JBT Marel þegar upp væri staðið. Við viljum að allir horfi á viðskiptin sem áframhaldandi gott tækifæri og sjái hag í að vinna saman til framtíðar.“

Varðandi reiðufjárhlutfallið í tilboðinu segir Brian að JBT hafi viljað tryggja að fyrirtækið yrði ekki of skuldsett að loknum kaupunum. „Við höfum góða tilfinningu fyrir áætlaðri skuldsetningu JBT eftir viðskiptin en almennt séð er JBT mjög íhaldssamt þegar kemur að skuldsetningu. Við viljum hafa ráðrúm til athafna og þú veist aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér. Við leggjum mikla áherslu á að vera með traustan og heilbrigðan efnahagsreikning.“

Margir muni samþykkja

Aðspurður segist Brian eiga von á að margir hluthafar muni samþykkja tilboðið á næstu dögum. „Samtalið við hluthafa hefur verið mjög jákvætt. Við ættum að sjá fleiri greiða atkvæði nú í vikunni og í vikunni þar á eftir þar sem eftirlitsaðilarnir hafa lagt blessun sína yfir samrunann. Við munum halda áfram að eiga í öflugu samtali við hluthafa og þar má minnast á opinn dag í Marel í Austurhrauni í Garðabæ miðvikudaginn 11. desember nk. Þar verðum við Árni verðum með arinspjall um þau stóru tækifæri sem í samrunanum felast,“ segir Brian að endingu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK