Ævintýralegt flug yfir Reykjavík

Flugstjórarnir Kári Kárason og Arn­ar Jök­ull Agn­ars­son sýndu listir sínar þegar þeir flugu Esjunni, fyrstu Airbus-þotunni í flota Icelandair, tvisvar yfir Reykjavíkurflugvöll áður en lent var á Keflavíkurflugvelli. Gafst þá einstakt tækifæri til að skoða höfuðborgarsvæðið úr lofti.

Lagt var af stað frá Hamborg að morgni þriðjudags og kom vélin að höfuðborgarsvæðinu að ganga eitt. Bjart var yfir höfuðborgarsvæðinu en úrkoma í Keflavík.

„Góðir farþegar. Við bjóðum Airbusinn og ykkur öll velkomin heim. Klukkan er korter yfir eitt. Við í áhöfninni vonum að ferðin hafi verið ykkur ánægjuleg. Það hefur verið mikill heiður að taka þátt í þessu verkefni með ykkur og enn og aftur til hamingju með daginn,“ sagði María Björg Magnúsdóttir yfirflugfreyja við komuna til Keflavíkur. Eftir að farþegar höfðu gengið frá borði var áhöfninni fagnað. Svo var vélinni komið fyrir í flugskýli Icelandair þar sem tekið var á móti áhöfninni með blómum.

Kvöddu starfsfólkið í Hamborg

Þotan er af gerðinni Airbus A321 LR og stendur LR fyrir long range eða aukna flugdrægni.

Þegar þotunni var flogið frá flugvélaverksmiðju Airbus í Finkenwerder í Hamburg létu þeir Kári og Arnar hana vagga til og frá í kveðjuskyni við starfsfólk Airbus. Með þeim í för var flugkennarinn Flemming Bisgaard sem leiðbeindi þeim á nýju þotuna fyrir hönd Airbus. 

Til hátíðabrigða

Þeir flugu svo yfir höfuðborgarsvæðið í tilefni dagsins, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði, en sjón er sögu ríkari.

Myndskeiðið hefst reyndar með því að Esjan kemur inn í flugskýli Icelandair á Keflavíkurflugvelli en svo hefst upptakan af því þegar hún kemur til lendingar á Reykjavíkurflugvelli úr suðri. Var þá flogið yfir Kópavog og Fossvog og að flugbrautinni áður en þotan hækkaði flugið hratt á ný og tók stefnuna norður. Svo var flogið aftur yfir Reykjavíkurflugvöll áður en stefnan var tekin til Keflavíkur.

Flugnúmerið í þessu Jómfrúrflugi Esjunnar var F15511, skráningarnúmer vélarinnar er TF-IAA og fékk hún sem áður segir nafnið Esja.

Myndskeiðið er samsett úr nokkrum myndskeiðum sem eru tekin upp á farsíma.

Fjallað var um fyrsta flugið á mbl.is fyrr í þessari viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK