Heildareiginfjárkrafa bankanna hækkar

Heiðrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu.
Heiðrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu. mbl.is/Arnþór Birkisson

Það virðast vera blendnar tilfinningar í garð ákvörðunar fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands í fyrradag, er bankinn ákvað að hækka eiginfjárauka á stóru bankana en lækka á móti kerfisáhættuauka. Með því hækkar heildareiginfjárkrafa á stóru bankana á meðan hún lækkar á minni fjármálafyrirtæki.

Heiðrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu fagnar lækkun kerfisáhættuaukans en hún hefði viljað sjá heildareiginfjárkröfu lækka á stóra banka jafnt sem minni, enda séu eiginfjárkröfur hér á landi þær hæstu í gjörvallri Evrópu.

„Íslenska fjármálakerfið stendur traustum fótum eins og komið hefur fram. Við búum við gott og virkt eftirlit, og viljum hafa reglur skýrar og eftirlit gott. Það er þó þannig að hvergi í Evrópu gilda jafn strangar reglur og hér á landi hvað það varðar eiginfjárkröfur bankanna og tímabært er að lækka þær til jafns sem gerist í nágrannaríkjum okkar,“ segir hún.

Hún segir lækkun Seðlabankans á kerfisáhættuauka úr 3% í 2% ánægjulega og tímabæra.

„Í heild sinni er þetta því góðar fréttir fyrir minni fjármálafyrirtæki en eiginfjárkröfurnar á þau lækka. Eiginfjárkröfurnar á kerfislægu mikilvægu bankana hér á landi standa þó ekki í stað að öllu leyti. Vissulega kemur lækkun á einum lið til móts við hækkun á öðrum, en þegar horft er til lána sem veitt eru erlendis þá hefur hækkunarliðurinn eingöngu áhrif á þau lán og leiðir því til raunhækkunar á eiginfjárkröfum er því nemur.“

Var nauðsynlegt að hækka?

Heiðrún veltir því fyrir sér hvort hækkun eiginfjáraukans vegna kerfislegs mikilvægis hafi verið nauðsynleg.

„Þegar horft er til þess að eiginfjár- og lausafjárstaða kerfislega mikilvægu bankanna þriggja er sterk og aðgengi að markaðsfjármögnun sé gott, og vanskil ekki að aukast, þá má velta því fyrir sér hvort ákvörðun Seðlabankans um að hækka eiginfjárauka vegna kerfislegs mikilvægis úr 2% í 3% sé nauðsynleg og hún hefði frekar átt að vera óbreytt. Jafnvel mætti velta fyrir sér hvort ekki sé svigrum til að ganga lengra í lækkun eiginfjárkrafna fyrir bæði minni og stærri aðila,“ segir hún.

Hún bendir á að eins og staðan sé í dag stafi hagkerfinu ekki hætta af falli banka.

„Eiginfjár- og lausafjárstaða þessara banka sterk. Lítið hefur borið á vanskilum eða greiðsluerfiðleikum hjá heimilum eða fyrirtækjum og arðsemi bankanna er viðunandi í samanburði við samanburðarlönd. Að teknu tilliti til vaxtastigs og verðbólgu er arðsemin aftur á móti vel undir meðaltalinu í Evrópu. Við vissulega búum við hátt raunvaxtastig, en væntingar eru bundnar við að það fari lækkandi samfara lækkandi verðbólgu, en ákvörðun um lækkun vaxta liggur hjá Seðlabankanum og vegna hærri stýrivaxta þá hefur hægt á vexti efnahagsumsvifa.“

Þyngra en þungt regluverk í Evrópu

Evrópskir bankar séu í auknum mæli að kvarta undan álögum og þungu regluverki í Evrópu með vísan til þess að Evrópa sé að verða undir í alþjóðlegri samkeppni.

„Þegar við horfum til þess að íslenska fjármálakerfið er með hæstu álögurnar í Evrópu er ástæða til að hafa áhyggjur af samkeppnisstöðu okkar. Í nýbirtri skýrslu Intellecon, er tekið saman að vogunarhlutfall íslenska bankakerfisins er það hæsta í Evrópu, sem og bindiskylda, auk þess sem við búum við hæstu skatta á banka í Evrópu. Í skýrslunni er einnig fjallað um svokallað Íslandsálag, sem er að miklu leyti heimatilbúinn vandi og samandregið leiða þessar sérstöku íslensku álögur til þess að vaxtastig er í kringum 1 prósentustigi hærra en það þyrfti að vera, skv. skýrslunni Önnur birtingamynd heimatilbúna vandans kemur fram í því að skattbyrði íslenska bankakerfisins er sú mesta í Evrópu í hlutfalli við áhættuvegnar eignir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK