Íslendingar bera sig saman við Skandinava þegar þeim hentar en líta fram hjá þeim öðrum stundum.
Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundi Kompanís, viðskiptaklúbbs Morgunblaðsins, sem haldinn var í Hádegismóum í gær.
Hann bendir á að þjóðir Skandinavíu hafi allar valið mismunandi leiðir í peningamálastjórnun. Finnar eru með evruna, Danir tengja sína krónu við evru og Norðmenn og Svíar með fljótandi mynt og verðbólgumarkmið.
„Allar þessar þjóðir eru ánægðar með sitt val. Það er ekki myntfyrirkomulagið sem er aðalmálið heldur hagstjórnin. Sama á við þegar kemur að samanburði á lífskjörum á Íslandi við Norðurlönd. Þar er aðeins vísað til frændþjóðanna ef samanburður við þær er talinn sýna að lífskjör hér séu lakari. Sannleikurinn er hins vegar sá að við höfum verið í sérflokki hér á Íslandi hvað varðar launahækkanir og kaupmátt eftir lok covid-heimsfaraldursins sem endurspeglar mikinn hagvöxt hérlendis,“ segir Ásgeir.
Ásgeir nefnir jafnframt að segja megi að við höfum unnið til baka það framleiðslutap sem við urðum fyrir í covid-faraldrinum. Kaupmáttur hér hafi vaxið töluvert þrátt fyrir verðbólgu en minnkað annars staðar á Norðurlöndum.
„Sérstaklega á þetta við um Noreg og Svíþjóð en gjaldmiðlar þessara landa hafa fallið töluvert samhliða því að hagvöxtur hefur verið hverfandi eða jafnvel neikvæður. Raunar má segja að Norðurlöndin hafi ekki enn náð sér eftir faraldurinn. Lífskjörin á Íslandi eru því mjög góð miðað við Skandinavíu og kaupmáttur íslensku krónunnar hefur verið mjög mikill fyrir Íslendinga á ferðalögum erlendis,“ segir Ásgeir og bætir við að það sé því til mjög mikils að vinna fyrir okkur að tryggja stöðugleika til framtíðar. Góð lífskjör séu aldrei sjálfgefin fyrir okkur Íslendinga.
Á fundinum ræddi hann einnig um hagstjórn Íslands á tímum heimsfaraldurs og hækkana á hrávörumarkaði. Þá ræddi hann um stöðuna í hagkerfinu um þessar mundir og horfur.
Ásgeir segist vona að við berum gæfu til þess að ná mjúkri lendingu. Verðbólgan sé á niðurleið og Seðlabankinn hafi náð mjög sýnilegum árangri í þeirri viðleitni að lækka verðbólgu þótt það hafi vitaskuld verið gert með því að beita mjög aðhaldssamri peningastefnu. Ásgeir nefnir jafnframt að hann vonist til að þessum árangri verði hægt að fylgja eftir með vaxtalækkunum á nýju ári, samhliða því að þjóðarbúskapurinn komist í jafnvægi.
„Við höfum einnig lagt gríðarlega áherslu á að viðhalda stöðugleika í greiðslujöfnuði landsins sem kemur fram í stöðugleika á gjaldeyrismarkaði. Við höfum líka komið í veg fyrir ofþenslu í fjármálakerfinu og það hefur heppnast vel. Það sést hvað best á því að skuldahlutföll eru mjög lág. Skuldir heimilanna eru að lækka sem hlutfall af tekjum og landsframleiðslu og enn ber lítið á greiðsluvandræðum eða vanskilum,“ segir Ásgeir.
Kompaní er viðskiptaklúbbur Morgunblaðsins og mbl.is og er ætlað að sameina starfandi fólk á Íslandi. Kompaní er þannig vettvangur miðla Árvakurs til að veita viðskiptavinum enn betri þjónustu þar sem hægt er að hlýða á fræðslufundi og fyrirlestra, fylgjast með nýjungum og læra af reynslu annarra sem þekkja hvað það er að reka fyrirtæki á Íslandi. Á fundinum sem fram fór í gær gæddu gestir sér á veitingum frá Finnsson Bistro.