Styrkás, sem er í 63,4% eigu Skeljar fjárfestingafélags, undirritaði í dag samkomulag um helstu skilmála kaupsamnings vegna kaupa á 100% hlutafjár í endurvinnslufyrirtækinu Hringrás.
Samkomulagið er meðal annars gert með fyrirvara um gerð áreiðanleikakönnunar, gerð kaupsamnings, endanlegt samþykki stjórnar- og hluthafafundar og samþykki Samkeppniseftirlits.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
Seljendur í viðskiptunum eru TF II slhf., framtakssjóður í stýringu Landsbréfa, sem fer með 60% eignarhlut í Hringrás og Hópsnes ehf. sem fer með 40%.
Fram kemur að fyrirhuguð kaup séu liður í áætlunum Styrkáss um að umhverfisþjónusta verði eitt kjarnasviða félagsins í þjónustu við atvinnulífið á Íslandi.
Í samkomulaginu er gert ráð fyrir því að heildarvirði (e. enterprise value) Hringrásar sé 6,3 milljarðar króna en heildarvirði geti orðið allt að 6,5 milljarðar verði árangursviðmiðum náð.
Kaupverð eigin fjár (e. equity value) mun ráðast af stöðu nettó vaxtaberandi skulda og áætlaðra eftirstöðva fjárfestinga á viðmiðunardegi.
Allt kaupverðið verður greitt með nýjum hlutum í Styrkás. Verð nýrra útgefinna hluta í Styrkási í viðskiptunum miðast við að eiginfjárvirði Styrkáss sé tæplega 20,5 milljarðar króna. Áætlað er að seljendur eignist á bilinu 9,7-10,7% hlut í Styrkási eftir kaupin.
Áætlaður hagnaður Hringrásar fyrir afskriftir, skatta og fjármagnsliði er 244 milljónir króna árið 2024. Bókfært virði fastafjármuna Hringrásar að loknum fjárfestingum nemur 6,2-6,4 milljörðum króna og eigið fé félagsins er 2,3 milljarðar króna.
Hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) Hringrásar á tímabilinu 2021-2023 var að meðaltali tæplega 500 milljónir króna. Þegar framkvæmdum á lóð og flutningi á starfsemi Hringrásar er lokið er lagt til grundvallar við kaupin að hagnaður félagsins fyrir afskriftir (EBITDA) verði yfir 1 milljarður króna.
Að teknu tilliti til viðskiptaverðs er áætlað virði eignarhlutar Skeljar í Styrkási tæplega 13 milljarðar króna. Bókfært verð hlutafjár Skeljar í Styrkási í hálfsársuppgjöri Skeljar var tæplega 10 milljarðar króna.
Ráðgjafar Styrkáss í ferlinu eru Akrar Consult og BBA Fjeldco.
Í tilkynningunni segir að Skel telji rekstur Hringrásar og eignir félagsins skapa fjölmörg tækifæri til lengri tíma litið á sviði endurvinnslu og umhverfismála sem verði sífellt veigameiri í starfi atvinnufyrirtækja. Þá færi kaup Styrkáss á Hringrás félagið einnig nær settu marki um vöxt í aðdraganda skráningar félagsins í kauphöll fyrir lok árs 2027.
Styrkás er þjónustufyrirtæki við íslenskt atvinnulíf. Félagið hefur markað sér stefnu um bæði innri og ytri vöxt á fimm kjarnasviðum, þ.e. á sviðum orku og efnavöru, tækjum og búnaði, umhverfi, iðnaði og eignaumsýslu.
Innan samstæðu félagsins núna eru fyrirtækin Skeljungur, Klettur og Stólpi Gámar sem eru leiðandi félög á sínum sviðum.
Hagnaður samstæðufélaga Styrkáss fyrir afskriftir (EBITDA) nam samtals 2,6 milljörðum króna árið 2023 og hagnaður var 1,2 milljarðar króna eftir skatta.