Eyþór Kristleifsson, forstjóri Skræðu, upplýsingatæknifyrirtækis sem sérhæfir sig í heilbrigðislausnum, telur svarta tíma framundan fyrir nýsköpunarfyrirtæki. Skrifað sé í skýin að fráfarandi landlæknir, Alma Möller, verði heilbrigðisráðherra.
Þetta segir hann í Dagmálum þar sem hann, ásamt Gunnari Zoëga forstjóra OK og formanni fyrirtækja í upplýsingatækni, var gestur í vikunni.
„Ég held að þetta verði mjög erfitt ef, og eiginlega þegar, Alma verður heilbrigðisráðherra. Ég held að það sé eiginlega skrifað í skýin,“ segir Eyþór.
Hann segir þörf á ráðherra sem sé tilbúinn til þess að vinda ofan af samkeppnishindrunum á markaði heilbrigðislausna. Fráfarandi landlæknir sé ekki til þess fallinn.
„Hún hafandi verið ábyrgðaraðili fyrir því sem hefur verið í gangi síðan 2018, þar sem allar þessar greiðslur hafa farið fram undir hennar eftirliti, þá er hún ekki líklegur kandidat til þess að fara að gagnrýna eigin verk. Sérstaklega eins og hún hefur komið fram í kosningabaráttunni, þá hefur hún gert hið gagnstæða, hún hefur varið það sem gert var og barið sér á brjóst fyrir það að vera að vinna góð störf þarna. Þannig að ég tel að það séu í raun og veru svartir tímar fram undan fyrir nýsköpunarfyrirtæki í heilbrigðisgeiranum,“ segir Eyþór.
Hann telur mikla hættu á því að ákveðnar hugmyndir sem hafi komið fram innan heilbrigðisráðuneytisins að undanförnu verði að veruleika undir hennar forystu.
„Þar sem að meðal annars var gerð úttekt af hálfu Ríkiskaupa á þeim möguleikum sem væru í stöðunni að ríkið myndi einfaldlega kaupa Sögu-kerfið alfarið, kerfi sem að skattgreiðendur eru þegar búnir að borga milljarði í að sólunda fjármagni í viðhalda skjalavinnslukerfi frá 1993, að það er allt í einu núna uppi á borðinu að fara kaupa það kerfi,“ segir hann.
Þetta hafi verið gert með vitund Ölmu.
„Ég tel mjög líklegt að hún muni bara fylgja þessu eftir og greiða veginn. Og þá er náttúrulega búið að klippa líka Origo og Helix úr snörunni, þeir eru þá ekki lengur eignaraðilar að þessu kerfi og nýir eigendur þess félags eru búnir að kassa inn á Helix og allir ánægðir,“ segir hann.