Að loknum kosningum

Til þess að treysta áframhaldandi verðmætasköpun í sjávarútvegi á komandi …
Til þess að treysta áframhaldandi verðmætasköpun í sjávarútvegi á komandi árum eru nokkrir mikilvægir þættir sem þurfa að vera í forgrunni, segir Heiðrún Lind. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS skrifar:

Kosningum er lokið og við höfum fengið lýðræðislega niðurstöðu. Það verður að teljast líklegt að það séu ekki allir sáttir við úrslitin en þannig verður það víst alltaf. Lýðræðið hefur talað og við höfum fengið þá niðurstöðu sem okkur ýmist líkar eða mislíkar. Við megum þó aldrei gleyma því hve miklu máli það skiptir að við fáum að taka þátt í vali á þeim sem stýra landinu. Það er ekki sjálfgefið.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir.

Á þessari stundu vitum við lítið um það hvernig næsta ríkisstjórn verður. Það eru ekki margir raunhæfir möguleikar í stöðunni. Við vitum þó að það er útilokað að allir flokkarnir, sem komast til valda, nái að standa við öll loforðin sín. Fram undan er tími samninga og málamiðlana.

Það er þó mögulegt að átta sig á því hverju þjóðin hafnaði. Eini flokkurinn sem vildi banna fiskeldi í sjó er fallinn af þingi og átti meira að segja drjúgan spöl eftir í þau fimm prósent sem þurfti til. Líka sá flokkur sem síst vildi auka raforkuframleiðslu þjóðarinnar. Flokkurinn sem vildi ríkisvæða sjávarútveginn er ekki heldur í hópi þeirra sem mynda næsta þing. Það má ýmislegt lesa úr þeim niðurstöðum.

Ég held að almennur kjósandi landsins hafi gert sér grein fyrir því að möguleikar Íslands liggja í því að halda áfram að framleiða, vaxa og bæta lífskjör. Vöxtur og fjölbreytni í útflutningi eru með öðrum orðum forsendur góðra lífskjara. Snar þáttur í þessu verkefni okkar er að nýta auðlindir lands og sjávar með skynsamlegum og arðbærum hætti.

Í kosningabaráttu slagorða er alltaf hætta á að þetta mikilvæga verkefni gleymist – hversu mikilvægt það er að halda áfram að vaxa, skapa störf og tryggja hagvöxt. Við þurfum gjaldeyristekjur, við þurfum að geta selt vörur okkar og þjónustu á alþjóðlegum mörkuðum og við þurfum að skapa störf fyrir fólkið sem býr á Íslandi. Það er þetta tannhjól verðmæta sem tryggir að hægt sé að reka öflugt velferðarkerfi.

Víða um heim má sjá þjóðir sem eru ríkar að auðlindum en ná ekki að nýta þær með skynsamlegum hætti. Það er raunar meginregla fremur en undantekning þegar kemur að fiskveiðiauðlindinni. Við Íslendingar erum blessunarlega ekki í þeirri stöðu og það er mikilvægt að sofna aldrei á verðinum þegar kemur að því að treysta þessa eftirsóknarverðu stöðu. Til þess að treysta áframhaldandi verðmætasköpun í sjávarútvegi á komandi árum eru nokkrir mikilvægir þættir sem þurfa að vera í forgrunni.

Í fyrsta lagi þurfum við að hafa fyrirsjáanleika. Greinin þarf að átta sig á því hvað bíður hennar næstu ár og geta þannig gert áætlanir sem líklegar eru til að standast. Það er lítill hvati fyrir fólk og fyrirtæki að fjárfesta í óvissu.

Í öðru lagi þurfum við að haga skattlagningu á greinina með þeim hætti að hún hafi rými til fjárfestinga og nýsköpunar. Stóran hluta af velgengni íslensks sjávarútvegs má rekja til þess og það er ekki síður mikilvægt nú þegar kröfur verða sífellt meiri í umhverfis- og gæðamálum.

Í þriðja lagi verðum við að bæta hafrannsóknir til að tryggja að við getum haldið áfram að ná sem mestu úr auðlindinni með sjálfbærum hætti. Við vitum til dæmis að góð loðnuvertíð getur bætt verulega við hagvöxt í landinu, en til þess að hún geti orðið að veruleika þurfum við að finna þennan brellna fiskistofn og skilja betur hegðun hans og aðstæður í hafi.

Í fjórða lagi þurfum við að auka raforkuframleiðslu. Við verðum að geta notað rafmagn til framleiðslu á fiskimjöli og tryggja raftengingu skipa í höfn. Raforka er frumforsenda þess að sjávarútvegur nái metnaðarfullum markmiðum í umhverfismálum.

Þessi atriði eru besta leið okkar til að auka verðmætasköpun og skila þjóðinni meiri tekjum af auðlindinni. Þrátt fyrir að umræða um sjávarútveg snúist oft og tíðum um veiðigjald, þá er auðsýnt að áhersla á að treysta samkeppnishæfni sjávarútvegs mun ávallt skila margfalt meiru en það sem gjaldtaka skilar. Með skynsamlegu regluverki og sjálfbærri nýtingu verður skattspor atvinnugreinarinnar stórt og hinn samfélagslegi ábati þar með mikill. Árið 2023 var skattsporið tæpir 90 milljarðar króna og hefur aldrei verið stærra.

Við erum á leið úr tímabili hárra vaxta og verðbólgu en nú er mikilvægt að halda rétt á spilunum. Besta leiðin til að gera það er að skapa fyrirtækjum landsins skilyrði til að vaxa og halda þannig áfram að bæta hag þjóðarinnar allrar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK