Stefna á að framleiða 30.000 tonn

Róbert Róbertsson fjármálastjóri Kaldvíkur
Róbert Róbertsson fjármálastjóri Kaldvíkur mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útflutningsverðmæti sjókvíaeldis hefur aukist mikið á undanförnum árum en nýjustu tölur sem eru frá árinu 2022 sýna að það sé um 46 milljarðar króna. Það fyrirtæki sem er fremst á því sviði er laxeldisfyrirtækið Kaldvík en það varð til við sameiningu félaganna Laxa fiskeldis, Fiskeldis Austfjarða og Rifóss. Kaldvík er eina félagið með fiskeldi á Austfjörðum. Það er með rekstur í Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði og Berufirði auk þess að eiga leyfi í Stöðvarfirði og hafa sótt um eldi í Seyðisfirði. Þá rekur það seiðaeldis­stöðvar í Þorlákshöfn og við Kópasker auk laxasláturhúss á Djúpavogi.

Róbert Róbertsson fjármálastjóri Kaldvíkur segir í samtali við ViðskiptaMoggann að það sem hafi helst heillað hann við greinina séu möguleikarnir sem fólgnir eru í iðnaðinum.  Róbert er í miðopnuviðtali ViðskiptaMoggans þessa vikuna.

Róbert lærði hagfræði í grunnnámi sínu en síðan lá leiðin í reikningsskil og endurskoðun. Samhliða því námi tók hann framhaldsnám í fjármálum fyrirtækja og fékk í kjölfarið starf hjá Ernst og Young sem nú hefur sameinast Deloitte. Þar starfaði hann við endurskoðun og ráðgjöf í um tíu  ár þangað til hann ákvað að söðla um yfir í fjármálastjórn og réð sig til Kaldvíkur árið 2020.

„Það sem heillaði mig hvað mest við laxeldið voru möguleikarnir. Þetta er ört vaxandi iðnaður og mikil tækifæri fram undan. Það er virkilega gaman að taka þátt í uppbyggingu á einhverju sem er algjörlega nýtt. Þegar fram líða stundir verður greinin ein af grunnstoðunum, ekki ósvipað ferðamannaiðnaðinum og sjávarútveginum. Því þótti mér erfitt að segja nei við tækifærinu til að taka við þessari stöðu,“ segir Róbert.

Kaldvík stefnir að því að árleg framleiðsla fyrir­tækisins nemi um 30.000 tonnum. Í ár verður framleiðslan um 15.000 tonn. 

„Við höfum framleiðslugetu upp á um 7-8 milljónir seiða árlega og meðalþyngd seiða er á bilinu 300-400 grömm. Það er framleiðslugetan okkar í dag. Við framleiddum 5,4 milljónir seiða í fyrra og stefnum á 6 milljónir í ár. Við ætlum að auka framleiðsluna jafnt og þétt uns við náum 30.000 tonna markmiðinu,“ segir Róbert.

Í dag er um helmingur eldistímans í sjó og hinn helmingurinn á landi. Möguleiki er á að stækka landeldið í um 10.000 tonn. Fyrirtækið er í dag með leyfi fyrir 44.000 tonnum og þegar starfsemin í Seyðisfirði kemur inn í framleiðsluna mun fyrirtækið hafa leyfi fyrir 54.000 tonnum.

„Í þessum geira skiptir lífmassinn öllu máli og við höfum náð að auka framleiðsluna og minnka kostnað,“ segir Róbert.

Skuldir Kaldvíkur jukust úr 187 milljónum evra í 219 milljónir evra á þriðja ársfjórðungi 2024 en það samsvarar um 31,5 milljörðum íslenskra króna á núverandi gengi.

Róbert segir að fyrirtækið hafi lagt mikla áherslu á að byggja upp innviði sem ekki hafa verið til staðar. Kaldvík er fjármagnað út árið 2025 og hefur aukið við fjárfestingar í varanlegum rekstrar­fjármunum (e. CAPEX). Róbert segir að öll íslensku laxeldisfyrirtækin hafi lagst í miklar fjárfestingar til að byggja upp iðnaðinn.

„Hjá okkur sést það vel á gæðum laxins hversu mikið við höfum lagt í að byggja upp gott umhverfi fyrir hann til að vaxa og dafna í,“ segir Róbert og bendir á að því fylgi áskoranir að byggja upp nýjan iðnað hér á landi.

Viðtalið birtist í heild sinni í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK