Svipmynd:Gullhúðun er þekkt áskorun

Magnús Már segir hátt vaxtastig, verðbólgu og hina svokölluðu gullhúðun …
Magnús Már segir hátt vaxtastig, verðbólgu og hina svokölluðu gullhúðun vera þekktar áskoranir í rekstri fjármálafyrirtækja. Morgunblaðið/Karítas

Magnús Már Leifsson er fæddur og uppalinn á fjárbúinu Mávahlíð í Snæfellsbæ og tók nýlega við sem forstöðumaður einkabankaþjónustu Arion Premíu. Hann hefur marga fjöruna sopið á starfsferli sínum, m.a. unnið sem vallarstjóri á golfvelli, í fjárbúi, frystihúsi, humarbátum og sem lögfræðingur.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Ein af helstu áskorunum í framtíðarþjónustu við viðskiptavini fjármálastofnana er að vera vakandi fyrir síbreytilegum þörfum viðskiptavinanna og missa ekki tengsl við þá með aukinni sjálfvirknivæðingu. Arion Premía er þjónustuloforð sem var stofnað til höfuðs þessari áskorun. Við sníðum þjónustuna að þörfum viðskiptavina í umfangsmiklum viðskiptum við Arion-samstæðuna.

Við leitumst við að veita viðskiptavinum okkar persónubundna og faglega þjónustu með því að hlusta á þarfir þeirra, mæta þeim með lausnum og einfalda líf þeirra.

Jafnframt getum við veitt þeim ráðgjöf í skjóli reynslu og sérfræðiþekkingar með langtímahagsmuni þeirra að leiðarljósi. Síðan mætti auðvitað nefna þekktar áskoranir eins og verðbólguna, hátt vaxtastig og hina svokölluðu gullhúðun.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Daglega sæki ég mikið í útiveru og hreyfingu til að fá orku og innblástur í starfi. Það er fátt betra til að hreinsa hugann en að fara út að hlaupa í fallegri náttúru og ekki skemmir fyrir að vera með gott hlaðvarp í eyrunum, helst um hlaup eða viðtöl við áhugavert fólk.

Á sumrin fylli ég síðan á orkubankann fyrir árið með því að eyða til skiptis tíma á Snæfellsnesinu og í Laxá í Aðaldal. Ekkert jafnast á við fallegt sumarkvöld á fyrrgreindum tveimur stöðum í faðmi fjölskyldu og vina.

Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?

Ég fór í september síðastliðnum á Sjávarútvegssýninguna, IceFish, í Kópavogi sem var stórbrotin. Það er svo gaman að sjá hvað Íslendingar eru framarlega á heimsvísu í öllu sem tengist sjávarútvegi og nýsköpun í þeirri atvinnugrein miðað við stærð þjóðarinnar.

Ég hvet alla til að fara á þessar sýningar til að sjá kraftinn í íslenskum sjávarútvegi. Þar hitti ég jafnan mjög marga kunningja og æskuvini mína af Snæfellsnesi og fyrrverandi samstarfsmenn úr sjávarútvegi sem eru nú víðsvegar á landinu. Það eru alltaf mjög góðir endurfundir á þessum sýningum.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Ef ég á að velja eina bók yrði ég að velja Tiny Habits eftir BJ Fogg. Í stuttu máli fangar hún mikilvægi þess að búta verkefni niður þar sem margt smátt gerir eitt stórt. Það sem hefur þó væntanlega mótað mig mest í starfi er uppruninn af Snæfellsnesinu þar sem ég lærði að vinna í fjölbreyttum störfum og fólkið í kringum mig á lífsleiðinni.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Ég hef einkum haldið lögfræðiþekkingunni minni við síðustu ár með því að vera leiðbeinandi og prófdómari á grunn- og meistarastigi við Háskólann í Reykjavík. Einnig er mjög mikið lagt upp úr endurmenntun og fróðleik fyrir starfsfólk í formi ýmiss konar fræðslu í Arion banka hf.

Jafnframt hef ég sérstakan áhuga á ævisögum og les þær mikið, þar sem hægt er að læra af sigrum sem og mistökum annarra.

Hugsarðu vel um heilsuna?

Síðustu ár hef ég lagt mjög mikið upp úr því að hugsa vel um heilsuna. Hlaupadellan hefur verið stigvaxandi og hefur leitt til almennt heilbrigðari lífsstíls. Ég fylgi prógrammi frá Fjallahlaupaþjálfun í hlaupunum til að undirbúa mig fyrir Laugaveginn næsta sumar og reyni að stunda styrktaræfingar í bland við hlaupin.

Svo hafa fræðin síðustu ár sýnt fram á jákvæð áhrif þess að stunda gufuböð svo að ég reyni að komast í gufu og kaldan pott reglulega.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýtt starf?

Ég lít þannig á að draumastarfið sé það starf sem maður sinnir hverju sinni og er engin undantekning á því að þessu sinni. Ef ég ætti að velja upp á nýtt og gæti ekki valið það starf sem ég er í núna yrði það eflaust blanda af starfi sem myndi sameina náttúru, hreyfingu og mannleg samskipti.

Til dæmis í formi leiðsagnar í laxveiði í Aðaldalnum á sumrin og á veturna í leiðsögn í hlaupaferðum erlendis (í hitanum), allt með þeim fyrirvara að fjölskyldan yrði mér við hlið.

Hvað myndir þú læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Efst á baugi yrði væntanlega MBA-gráða en þar á eftir sveinspróf í smíði svo ég yrði verkfær í flest verkefni heima fyrir, sem ég þarf alla jafna að útvista í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK