Vilja verða skuldlétt félag

Ellert Arnarson fjármálastjóri Amaroq Minerals.
Ellert Arnarson fjármálastjóri Amaroq Minerals. mbl.is/Árni Sæberg

Ellert Arnarson fjármálastjóri Amaroq Minerals segir í samtali við ViðskiptaMoggann að fyrirtækið hugsi efnahagsreikninginn þannig að fyrir­tækið vilji vera skuldlétt félag og því sem næst nettó skuldlaust. Hann útskýrir að í lok september hafi fyrirtækið dregið á framkvæmdalán að andvirði 18,5 milljóna bandaríkjadala (um 2,6 milljarða króna).

„Í árshlutareikningi fyrir þriðja ársfjórðung voru einnig skuldir vegna breytanlegs skuldabréfs sem var breytt í hlutafé eftir reikningsskilin, sem einfaldaði efnahags­reikninginn til muna og endurspeglar einmitt hvernig við viljum hafa hann. Þannig að nú erum við eingöngu með framkvæmdalánið ádregið og nettó skuldir í lok ársfjórðungsins því í kringum núll,“ útskýrir Ellert.

Hann undirstrikar að félagið sé vaxtarfélag en vilji vaxa út frá réttum forsendum og sterkum efnahagsreikningi.

„Sem dæmi um aðferðafræði er þegar við fáum inn meðfjárfesti í dótturfélagið okkar, Gardaq, sem heldur á rannsóknarleyfum á svæðum sem innihalda kopar, nikkel og sjaldgæfa jarðmálma (e. rare earths). Sá fjárfestir leggur inn tæplega 30 milljónir kanadadollara (um 3 milljarða króna) og eignast 49% hlut í félaginu og fjármagnar um leið þriggja ára rannsóknar­verkefni. Við leggjum inn leyfin og höfum umsjón með rekstrinum. Fyrir þá vinnu eignumst við kröfu á félagið sem verður síðan breytt í hlutafé til að halda okkar hlut.“

Starfa í sátt og samlyndi við samfélagið

„Grænlendingar eru með sterka lagaumgjörð utan um námuiðnaðinn. Nýr lagarammi tók gildi árið 2009 þar sem umgjörð frá Norðurlöndunum var notuð sem fyrirmynd. Þannig að regluverkið er traust. Við greiðum sem dæmi fyrirfram­ákveðið auðlindagjald og þurfum einnig að taka fjármuni til hliðar svo hægt sé að standa undir kostnaði við að loka námunni,“ segir Ellert.

Hann bætir við að Amaroq sinni ýmsum samfélagslegum verkefnum.

„Öll okkar starfsemi þarf að vera í sátt og samlyndi við samfélagið. Við styðjum við íþróttir á svæðinu, skák, kórastarf, kaupum kjöt af bændum og svo mætti lengi telja. Þá stefnum við að því að um 50% af starfsmönnum okkar verði Grænlendingar. Það skiptir máli fyrir nærsamfélagið og einnig hefur það jákvæð áhrif á kostnað okkar við að flytja fólk inn og út úr Grænlandi, sem getur verið dýrt. Við þurfum og viljum byggja upp starfsemi okkar í góðu samstarfi við stjórnvöld og íbúana á svæðinu," segir Ellert.

Viðtalið í heild sinni má lesa í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK