Friðjón Þórðarson framkvæmdastjóri Qair Ísland, sem hyggst reisa vindmyllugarða á nokkrum stöðum á landinu og er í eigu franska fyrirtækisins Qair International, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að fyrirtækið eigi ekki jarðir eða landareignir á Íslandi og þar með ekki þær auðlindir eða réttindi sem þeim fylgja. Engin áform séu heldur um slík kaup. Fyrirtækið sé orkufyrirtæki. Gera verði greinarmun á orku og auðlindum.
Tilefnið er frétt Stöðvar 2 í síðustu viku þar sem sagt var frá því að erlendir fjárfestar hefðu nýlega boðið margfalt markaðsverð fyrir jörð í Húnavatnshreppi vegna vatnsauðlinda og að þeir ásældust fjölda annarra jarða í sömu sveit, jafnvel tuttugu talsins.
„Allir okkar samningar eru þinglýstir og öllum aðgengilegir, og þar má sjá þetta svart á hvítu,“ segir Friðjón.
Friðjón segir að ábati landeigenda í samningum við Qair Ísland geti verið umtalsverður. „Sá sem leigir frá sér land undir vindorkuver fær tekjur sem skipt geta miklu máli fyrir viðkomandi.“
Hann segir að slíkir samningar hafi þó sína fylgikvilla líkt og Qair Ísland upplýsi landeigendur um áður en samið er og rætt er um opinberlega á opnum íbúafundum. Með samningum við landeigendur sé því miður verið að setja á þá skotskífu. „Oft lenda landeigendur í áreiti við það að semja við orkufyrirtæki eins og okkar. Þeir sem eru andvígir svona starfsemi láta oft heyra í sér á mannamótum, í réttum og á þorrablótum til dæmis.“
Sem dæmi segir Friðjón að í svona samningum sé greitt hlutfall af tekjum vindorkuverkefnisins yfir gildistíma samnings, sem getur verið nokkrir áratugir. Oft er miðað við líftíma verkefnis. „Ólíkt vatnsorku þá eru í tilfelli vindorku yfirleitt færri landeigendur, oftast einn eða tveir, sem skipta þá leigutekjum sín á milli. Skiptingin er samningsatriði og getur verið jöfn milli aðila eða tekið sérstakt tillit til áhrifa á viðkomandi jarðir. Þessar tekjur geta skipt sköpum fyrir landeigendur. Þetta er ekki ósvipað því að eiga lax- eða silungsveiðiá. Þetta eru mjög áþekkir samningar.“
Í tilfelli vatnsorkufyrirtækja líkt og Arctic Hydro, sem Qair er hluthafi í, þá geta slík félög í algjörum undantekningartilfellum eignast jarðir. Til dæmis ef virkjanir skipta um eigendur. Ef slíkt gerist þá eru þær jarðir almennt seldar aftur að sögn Friðjóns.