Björn Berg Gunnarsson ráðgjafi og fyrirlesari skrifar:
Við bíðum öll eftir næstu vaxtalækkun. 0,75% í tveimur skrefum er fín byrjun en vonir standa til þess að peningastefnunefnd sé rétt að byrja og önnur lækkun bíði okkar 5. febrúar.
Eðlilega hafa margir leitað leiða til að létta greiðslubyrðina að undanförnu. Einhverjir færðu sig yfir í verðtryggð lán, lengdu líftíma þeirra, fóru úr jöfnum afborgunum í jafnar greiðslur eða festu vextina. En þeir sem héldu sig á breytilegum óverðtryggðum vöxtum sjá nú bærilegri reikninga berast inn um lúguna. Þá lækka vextir af bílalánum, yfirdrætti og mörgum öðrum neyslulánum sömuleiðis. Rekstur heimilisins ætti að öðru óbreyttu að batna.
Lægri mánaðarlegar greiðslur gefa okkur svigrúm til að mæta öðrum útgjöldum og laga okkur að hærra verðlagi í landinu. En hvað með að leyfa sér að hugsa aðeins lengra en fram yfir næstu mánaðamót? Vænkast hagur okkar til lengri tíma litið helst með lægri greiðslum í dag eða gætu vaxtalækkanir reynst enn verðmætari ef þær eru nýttar til að greiða lánin hraðar niður?
Fjárhagsleg markmið okkar flestra eru keimlík. Við viljum hafa það þokkalegt, vera örugg og geta leyft okkur eitthvað skemmtilegt, án þess að hafa hnút í maganum um hver mánaðamót. En við viljum líka að slíkt verði varanlegt. Ef það er á annað borð raunhæft gæti ein besta leiðin til að ná þeim markmiðum verið að halda óbreyttri greiðslubyrði, þrátt fyrir vaxtalækkanir. Lítum á íbúðalán fjölskyldu sem dæmi.
Óverðtryggt jafngreiðslulán hjóna stendur í 40 m.kr. Lánið er til 30 ára og bar þegar mest lét 11% vexti. Þá var greiðslubyrðin 381 þ.kr. á mánuði.
Við hverja vaxtalækkun verður heimilisreksturinn vissulega bærilegri, en ef þau ráða við óbreytta greiðslubyrði fer viðbótargreiðsla hvers mánaðar beint inn á höfuðstól lánsins. Það er einmitt galdurinn við að greiða niður lán svo vel takist til. Greiðum sem mest á lánið sjálft og sem minnst í kostnað. Þegar markmiðið er að lágmarka greiðslubyrði er því miður yfirleitt allt of lítið greitt af höfuðstól.
Þegar vextirnir voru 11% fóru aðeins 14 þ.kr. af 381 þ.kr. greiðslum hjónanna á höfuðstól lánsins. Séu vextirnir nú 10,25% er hægt að bæta 23 þ.kr. við og hvað gerist þá? Að óbreyttu styttist lánið úr 30 árum í rúm 22, eða um fjórðung.
Ég geri ekki lítið úr því hve nauðsynleg vaxtalækkunin hefði getað verið til að létta heimilisreksturinn, en það má ekki líta fram hjá þessum merkilegu áhrifum viðbótargreiðslu á höfuðstól lánsins.
Allt skiptir máli og á meðfylgjandi mynd sést hvernig stytta má lán með viðbótargreiðslu. Auk þess sjást áhrif þess að hætta við algengustu áskriftir í Lottó og Víkingalottó (12.200 kr. á viku) og greiða þess í stað inn á lánið. Í ljós kemur að bjóðist 8,5% vextir (sem nú þegar bjóðast með bindingu) og sé lottóáskriftinni sagt upp má stytta lánið um helming. Auðveldara verður að stækka við sig síðar vegna meiri eignamyndunar og svigrúm verður til fjárfestinga eða meiri einkaneyslu.
Ákvarðanir á borð við þessar, greiðslu viðbótarlífeyris inn á lán og uppgreiðslu neyslulána, geta haft afgerandi áhrif á fjárhagslega framtíð okkar og geta litlar fjárhæðir jafnvel haft meiriháttar áhrif til lengri tíma litið.