„Aðilar vinnumarkaðarins þurfa að sammælast um að raunlaun fylgi framleiðnivexti til að jafnvægi sé á milli sköpunar og skiptingar. Það mun ekki aðeins auðvelda hagstjórnina og draga úr fátækt heldur leiða til þess að áhersla allra verður í meira mæli á aukna framleiðni sem grundvöll bættra lífskjara og þjóðfélagssáttar á Íslandi.“
Svo skrifar Þorsteinn Þorgeirsson hagfræðingur í athyglisverðum viðauka um efnahagsþróun á Íslandi í þýðingu hans á bók dr. Ravi Batra, Þjóðhagfræði almennrar skynsemi, sem Almenna bókafélagið gaf nýverið út. Um er að ræða fyrstu þjóðhagfræðibókina sem kemur út á íslensku í um 20 ár.
Dr. Ravi Batra er prófessor við Southern Methodist-háskólann í Dallas í Texas, en hann hefur undanfarin ár þróað nýjar hugmyndir á sviði efnahagsmála sem varða grundvallarþætti efnahagslífsins, þ.e. sköpun og skiptingu verðmæta, og hvaða áhrif það getur haft á þróunina ef jafnvægis er ekki gætt á milli þessara þátta.
Sú mælistika sem hin nýja kenning Batra byggist á er launa-framleiðnibilið, einnig þekkt sem launabilið. Launabilið má skilgreina sem hlutfall vinnuaflsframleiðni og raunlauna.
Þorsteinn segir í viðauka sínum kenningu Batra um launabilið leggja nýjan grunn að þjóðhagslegri greiningu. Hægt sé að útskýra næstum öll þjóðhagsleg fyrirbæri með kenningunni. Niðurstaðan sé sú að skynsamlegt sé að stefna að því að halda jafnvægi milli sköpunar verðmæta og skiptingar þeirra. Kenningin veiti enn fremur nýja innsýn í íslenskt efnahagslíf og áskoranir þess og tækifæri.
Í viðaukanum bendir Þorsteinn m.a. á að ör og mikil stýrivaxtahækkun, eins og peningastefnunefnd Seðlabankans þurfti að grípa til árin 2022-2023 eftir að hún hafði misst verðbólguna frá sér, geti aukið hættu á skarpari niðursveiflu í framleiðslu- og atvinnustigi, sem þá krefst örari lækkunar vaxta síðar. Með því að gæta betur að því að raunlaun fylgi framleiðnivexti hér á landi, ásamt því að fylgjast með þróuninni alþjóðlega, verði ólíklegra en ella að slíkt ójafnvægi skapist í efnahagslífinu.
„Með því er þá jafnframt dregið úr þörf fyrir aukið aðhald í peningastefnu með háum vöxtum eða hækkun skatta og/eða samdrætti í ríkisútgjöldum til að bregðast við auknum verðbólguþrýstingi,“ skrifar Þorsteinn.
Þá segir þar að þótt erfitt sé að fyrirbyggja áföll stuðli jafnvægi í skiptingu framleiðsluverðmætanna að bættri viðbragðsgetu efnahagslífsins við ófyrirséðum áföllum og að aukinni sátt í samfélaginu.
Í samtali við Morgunblaðið segir Þorsteinn að viðbrögð hagfræðinga við kenningu Batra hafi almennt verið jákvæð, en varfærin.
Spurður hvort hann reikni með að launabilið verði í auknum mæli nýtt sem verkfæri við hagstjórn bendir Þorsteinn á að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hafi undanfarin ár ítrekað vísað í þörfina á að raunlaun fylgi framleiðnivexti. „Nú eru komnar fram vel ígrundaðar fræðilegar ástæður fyrir því,“ segir Þorsteinn.
Hann hefur kynnt efni bókarinnar fyrir yfirstjórnendum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, meðal annarra. „Þar á bæ voru aðilar opnir fyrir þessum hugmyndum og ætla að skoða þær nánar,“ segir hann.
Þorsteinn hefur enn fremur rætt um efni bókarinnar við nokkra íslenska háskólaprófessora. „Þeir hafa sýnt bókinni áhuga. Einn þeirra varaði mig þó við að fyrstu viðbrögð við nýjum hugmyndum einkenndust oft af efahyggju. Það verður að teljast nokkuð eðlileg nálgun í félagsvísindum. Aðalatriðið er að bókin er tilvalin fyrir kennslu eða sjálfsnám.“
Nú þegar svokölluð valkyrjustjórn virðist vera að taka á sig mynd gætu kenningar Ravi Batra gagnast, en Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og ein valkyrjanna, hefur löngum ætlað sér að útrýma fátækt.
„Mikilvæg atriði eru að með stöðugu launa- og framleiðnibili skapast minna álag á hagstjórnina og auðveldara verður að útrýma fátækt,“ segir nefnilega í viðauka Þorsteins.