Heildarafkoma A1-hluta ríkissjóðs árið 2025 er nú áætluð neikvæð um 1,2% af vergri landsframleiðslu. Er það lakari afkoma en áætlað var við framlagningu fjárlagafrumvarpsins í september og fjármálaáætlunar 2025-2029 í apríl.
Um tvo þriðju hluta af þessari afkomubreytingu má rekja til lægri tekna, en um einn þriðji stafar af auknum vaxtagjöldum.
Þetta kemur fram í tilkynningu Stjórnarráðsins.
„Lakari tekjuhorfur stafa að mestu leyti af því að spennan í þjóðarbúinu undanfarin misseri virðist nú hafa verið meiri en áður var talið. Því hefur þurft meiri kólnun efnahagsumsvifa en áður var talið til að ná fram þeirri markvissu lækkun verðbólgu sem nú birtist,“ segir í tilkynningunni.
„Hagkerfið er nú nálægt jafnvægi sem birtist m.a. í því að svipað mörg fyrirtæki vilja fjölga og fækka starfsfólki samkvæmt nýjustu könnun Seðlabankans. Lækkun verðbólgu og vaxta virðist þegar hafa stutt við neyslu heimila á ný og vísbendingar eru um að hún sé byrjuð að vaxa hóflega nú á seinni helmingi 2024.“
Tekið er fram að mat á aðhaldsstigi ríkisfjármála hafi lítið breyst enda leiði lakari afkomuhorfur ekki beint af ákvörðunum stjórnvalda.
„Aðhaldsstigið er áfram metið í námunda við 1% af landsframleiðslu bæði árin. Það er áfram nægur bati til að styðja við hjöðnun verðbólgu og lækkun vaxta,“ segir í tilkynningunni.
Þá er tekið fram að batinn í undirliggjandi afkomu 2024 og 2025 leiði af ákvörðunum á bæði gjalda- og tekjuhlið.
„Útgjöld ríkissjóðs (án vaxtagjalda) vaxa minna en áætlað jafnvægisstig landsframleiðslunnar bæði árin. Skattkerfisbreytingar auka tekjur ríkissjóðs um 15-20 ma. kr. í ár og annað eins á því næsta. Gagnvart heildarafkomu vegur það þó þyngra, á þessu ári, hvað þenslan í hagkerfinu hefur minnkað hratt, samanborið við 2023. Frumtekjur ríkissjóðs vaxa því heilt á litið minna en útgjöld í ár þrátt fyrir skattkerfisbreytingar.“