Yrði þriðji stærsti bankinn í Danmörku

Danski bankinn Nykredit hefur gert kauptilboð í allt hlutafé norðurjótlenska bankans Spar Nord. Tilboðið hljóðar upp á 24,7 milljarða danskra króna, eða sem nemur ríflega 480 milljörðum íslenskra króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nykredit.

Mæla með samþykki

Stjórn og framkvæmdastjórn Spar Nord mæla með því að hluthafar samþykki tilboðið.

Sameinaður banki yrði sá þriðji stærsti í Danmörku og mun búa yfir víðfeðmasta útibúanetinu í Danmörku. Bankarnir munu, verði samruninn að veruleika, starfa sem einn banki en útibú munu áfram bera ólík nöfn og merki.

Gangi viðskiptin eftir kaupir Nykredit alla hluti Spar Nord, utan eigin bréfa bankans, á 210 danskar krónur á hlut, eða um 4108 íslenskar krónur.

Nykredit hafði áður gert tilboð í Spar Nord sem samkvæmt dönskum fjölmiðlum var óhagstæðara en tilboðið sem nú liggur fyrir.

Gengi Spar Nord ríkur upp

Í kjölfar tilkynningar Nykredit hefur gengi hlutabréfa Spar Nord rokið upp, en þegar þetta er skrifað hefur gengi bréfanna hækkað um yfir 46% það sem af er degi.

Spar Nord er í dag fimmti stærsti banki Danmerkur og var stofnaður fyrir 200 árum síðan, árið 1824. Bankinn rekur 60 útbú vítt og breitt um Danmörku og viðskiptavinir hans eru yfir 400.000 talsins.

Nykredit á sögu sem nær allt aftur til ársins 1851 þegar húsnæðislánamarkaðurinn í Danmörku var að byrja að taka á sig mynd. Nykredit er stærsti lánveitandi Danmerkur, með hátt í helming allra húsnæðislána í landinu og yfir þriðjung allra lána.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK