Skipurit fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækisins Sýnar tók breytingum í byrjun nóvember. Þá voru tveir nýir stjórnendur ráðnir inn í framkvæmdastjórn fyrirtækisins.
Kristjana Thors Brynjólfsdóttir var síðan á dögunum ráðin til þess að stýra nýju sviði hjá Sýn sem ber heitið Miðlar og efnisveitur. Undir sviðið heyrir innlend og erlend dagskrárgerð, íþróttadeild, rekstur fréttastofu, útvarps og hlaðvarpa.
Kristjana hefur áratugareynslu af fjölmiðlageiranum á Norðurlöndunum. Hún hefur starfað hjá Warner Bros. Discovery og Viaplay Group. Þar hefur hún m.a. sérhæft sig í stefnumótun, efniskaupum og markaðssetningu, auk stjórnunar stafrænna umbreytingarverkefna.
Sýn hefur kynnt að fyrirtækið sé í umbreytingarferli og snerist Markaðsdagur fyrirtækisins sem haldinn var á dögunum einkum um að kynna fyrsta fasann í því umbreytingarferli.
Kristjana segir að Sýn hafi verið í stefnumótunarvinnu síðan í vor. Spurð hvenær megi vænta þess að breytingarnar komi til framkvæmda segir hún að árangurinn muni sjást á næsta ári.
„Það liggur ekki fyrir nákvæmlega hvenær en við erum í byrjunarfasanum. Ég tel að mestu tækifærin liggi í einföldun og samþættingu í rekstrarumhverfinu sem og frekari fjölbreytni í tekjustraumum,“ segir hún.
Árið 2022 kom Sýn á fót hlaðvarpsveitunni Tali en fjölmörg vinsæl hlaðvörp eru undir þeim hatti. Hlaðvarpsheimur Tals er með yfir 300 þúsund spilanir á mánuði og er vöxturinn milli ára um 25%.
Spurð hvort það séu ekki einnig miklir möguleikar í hlaðvörpunum sem megi nýta betur tekur Kristjana undir það.
„Þar eru klárlega mikil tækifæri og það hefur verið gríðarlegur vöxtur á síðustu árum. Við erum stærst á sviði útvarps og við ætlum að nýta þá reynslu á sviði hlaðvarpa. Við viljum verða stærstir í hlaðvörpunum,“ segir Kristjana.
Spurð hvernig Sýn hyggist bregðast við þeirri þróun að neysla fólks á afþreyingarefni sé að breytast segir Kristjana að mikil tækifæri séu fólgin í þeim breytingum.
„Við framleiðum mikið efni hjá Sýn og eigum að nýta alla okkar verkvanga (e. platforms) betur. Það eru klárlega tækifæri sem eru fólgin í þeim tímum sem við lifum á,“ segir Kristjana.
Greinin birtist í heild sinni í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.