„Það var gríðarlega erfitt að horfa á eftir ævistarfinu fuðra upp á svipstundu, það slapp ekki einn einasti bómullarhnoðri. Það er enn óraunverulegt að hugsa til þess að þetta hafi í raun gerst,“ segir Erna Gísladóttir um það þegar Snyrtistofan á Garðatorgi, sem hún rekur í félagi við eiginmann sinn Rúnar Hreinsson, brann 7. mars sl.
Stofan, sem er tuttugu ára gömul, er ein sú stærsta á markaðnum. Starfsmenn eru 12.
Erna segir að eftir aðeins um sólarhrings umhugsun og nokkra fjölskyldufundi hafi verið ákveðið að hefjast handa við uppbyggingu á ný. „Í raun kom ekkert annað til greina en að tryggja áframhaldandi þjónustu til okkar tryggu viðskiptavina sem í áraraðir hafa vanið komur sínar til okkar. Við vorum ekki tilbúin að leggja árar í bát. Á sama tíma fyllti baráttuandi okkar einstöku starfsmanna og vina okkur eldmóði. Stuðningur frá öðrum snyrtistofum reyndist einnig ómetanlegur. Það var ótrúlegt að upplifa samkenndina og stuðninginn. Það voru allir tilbúnir að lána tæki og tól. Maður fékk hlýtt í hjartað.“
Erna segist hafa verið heppin að finna bráðabirgðahúsnæði í Hlíðasmára í Kópavogi. „Það gekk vel að koma okkur fyrir þar. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að við lokuðum stofunni í raun aðeins í fimm daga. Með samhentu átaki fjölskyldu, starfsmanna og vina og tókst hið ótrúlega. Við náðum að opna í Hlíðasmára og á sama tíma byggja upp stofuna á Garðatorgi á aðeins fimm mánuðum. Við opnuðum svo aftur 29. júlí sl.“
Hún segir að ekki sé hlaupið að því að kaupa tæki og búnað fyrir snyrtistofur hér á landi með skömmum fyrirvara. Hann sé að mestu pantaður erlendis frá. „Okkar birgjar hér heima reyndust okkur vel og lánuðu ýmsar nauðsynjar fyrir reksturinn.“
Spurð um þjónustu stofunnar segir Erna að allar helstu snyrtimeðferðir séu í boði. „Við fylgjumst vel með nýjungum, förum árlega á sýningar erlendis og aðlögum framboð eftir því. Í dag eru kröftugar andlitsmeðferðir, augnháralengingar og alls konar vaxmeðferðir vinsælustu meðferðirnar fyrir utan að sjálfsögðu litun og plokkun sem alltaf er vinsælt að koma í.“
Viðskiptavinir Snyrtistofu Garðatorgs eru að megninu til konur en fjöldi karla fer vaxandi. „Karlar koma mikið í fótsnyrtingu. Einnig koma þeir í húðhreinsanir, andlitsmeðferðir og litanir á augnhárum og augabrúnum. Þeir vilja ekki síður hafa fallega húð og skerpa á augnsvæðinu.“
Erna hefur í gegnum tíðina verið dugleg að taka nema á stofuna. „Ég hef þjálfað mjög marga í faginu enda hef ég alla tíð lagt áherslu á að vera með nema og taka þátt í námsferlinu.“
Spurð um komandi ár segist Erna horfa björtum augum fram á veginn. „Snyrtistofan er komin aftur í litla góða samfélagið á Garðatorgi og hér er gott að vera. Við erum komin með nýja og fallega stofu sem er búin öllum bestu tækjum og búnaði til að veita framúrskarandi þjónustu. Á sama tíma hafa orðið ákveðin tímamót innan fjölskyldunnar þar sem Unnur dóttir okkar er komin inn í reksturinn og orðin hluthafi,“ segir Erna Gísladóttir að lokum.