Árið 2024 er senn á enda og ViðskiptaMogginn hefur nú komið út í síðasta skipti á þessu ári. Í Dagmálaþætti dagsins er litið yfir farinn veg, en gestir þáttarins eru þeir Gísli Freyr Valdórsson, sem rekur hið vinsæla hlaðvarp Þjóðmál, og Þórður Gunnarsson hagfræðingur.
Í umræðu um sigra og töp ársins nefnir Þórður að salan á TM til Landsbankans geti hvort tveggja talist sigur og tap ársins.
„[…] stór sigur fyrir hluthafa Kviku en tap fyrir okkur skattgreiðendur að mörgu leyti,“ segir hann.
Gísli Freyr segir það hið undarlegasta mál hvernig tryggingafélag var selt til fyrirtækis, hvers eigandi vildi ekki kaupa það.
„Það eru svo margar hliðar á þessu máli. Eins og við nefnum, Kvika kemur ágætlega út úr þessu. Þeir fá borgað í reiðufé og munu greiða stóran hluta til hluthafa og annar hluti fer í að vaxa áfram. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig starfsemi Kviku verður bara á næsta ári og þarnæsta, hvernig starfsemi bankans mun þróast. Hvað Landsbankann varðar, þá honum til varnar, er alveg fullkomlega eðlilegt að banki vilji kaupa tryggingafélag. Það er ekkert óeðlilegt við það í rauninni og TM fellur mjög vel að rekstri Landsbankans að mörgu leyti. Ég held að það sé svipaður kúltúr innan félaganna og það verði auðvelt að aðlaga þetta,“ segir Gísli.
Stóra vandamálið sé að Landsbankinn er ríkisbanki og það sé það sem gerði þetta mál jafn flókið og raun ber vitni.
„Svo ætlaði bankaráðið að sitja sem fastast, eða það leit þannig út, að þau ætluðu að hanga á þessu. Með einhverjum herkjum tókst að skipta þeim öllum út en það breytti svo sem engu um niðurstöðu málsins,“ segir Þórður áður en Gísli grípur orðið:
„Þetta var náttúrulega kostulegt. Bankaráðið var straujað út og við tekur nýtt bankaráð, og þar er formaður bankaráðs fyrrverandi aðstoðarmaður Lilju Alfreðsdóttur, Jón Sigurgeirsson. Hann fer síðan í fjölmiðla og segir: „Já, við skoðuðum þetta mál og þetta virðist bara vera allt í lagi,“ segir hann.
Þeir voru á einu máli um að ábyrgðin lægi hjá bankaráði en ekki Lilju Björk Einarsdóttur bankastjóra Landsbankans.
„Það að reka banka, í þessu tilviki Landsbankann, og vilja kaupa tryggingafélag og auka umsvif bankans á þessum markaði, það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. Hún gerði ein mistök, svona opinberlega, það var það að segja að bankinn væri ekki ríkisfyrirtæki. Það olli ákveðnum titringi í kringum hennar starf. En það er bankaráð sem hélt svolítið á svartapétri í þessu máli, finnst mér, frekar en bankastjórinn. Hún starfar í umboði bankaráðs og bankaráð gaf leyfi fyrir þessu og ýtti áfram á þetta, þannig að mér finnst svolítið erfitt að kasta heitu kartöflunni til hennar.“