Sér tækifæri á markaðnum

Alexander Jensen Hjálmarsson eigandi Akkur - Greining og ráðgjöf.
Alexander Jensen Hjálmarsson eigandi Akkur - Greining og ráðgjöf. mbl.is/Karítas

Akk­ur – Grein­ing og ráðgjöf er nýtt ráðgjaf­ar­fyr­ir­tæki sem sér­hæf­ir sig í að gefa út verðmöt og grein­ing­ar fyr­ir bæði ein­stak­linga og lögaðila. Stofn­andi Akk­urs er Al­ex­and­er Jen­sen Hjálm­ars­son en hann hef­ur margra ára reynslu af störf­um á fjár­mála­markaði. Hann er með gráður í viðskipta­fræði og verk­fræði og meist­ara­gráðu í fjár­mál­um.

Spurður hvaða tækifæri hann sjái í því að hefja sinn eigin rekstur á þessu sviði segist hann vera á þeirri skoðun að það vanti dýpri greiningar á markaðinn.

„Þær greiningar sem innlendir aðilar eru að bjóða upp á í dag skortir oft á tíðum meiri dýpt. Ég hef starfað allan minn starfsferil í fjárfestingum og fundist vera vöntun á dýpri greiningum. Ég hef skilning á því að ef menn setja fram greiningar á öllum markaðnum þá er erfitt að fara á dýptina. Ég er að hugsa mína þjónustu sem viðbót við það efni sem nú þegar er í boði,“ segir Alexander.

Hann bætir við að hann geri sér grein fyrir því að hann muni ekki geta fylgst með og gert djúpar greiningar á öllum félögum.

Fyrsta verðmatið sem Akkur gefur út er frumskýrsla um Arion banka en hún kemur út í dag og er opin öllum á heimasíðu Akkurs, www.akkur.net.

„Ég ætla að byrja á að greina bankana en eftir það mun ég gefa út verðmat á fleiri félögum,“ segir Alexander. Á næstu misserum gerir Alexander ráð fyrir að gefa út frumskýrslur, sem er þegar verðmat er gefið út í fyrsta sinn, á nokkurra vikna fresti.

Spurður hvort hann hyggist ráða fleiri starfsmenn með sér segir hann að það verði að koma í ljós.

„Ef vel gengur og það er eftirspurn eftir þessari þjónustu þá gæti það vel verið. Fyrst um sinn verð ég einn. Ég mun ekki ná að fjalla um öll félögin á markaðnum einn þannig að það gæti vel verið þegar fram líða stundir að maður fái einhvern með sér til þess að geta sinnt fleiri verkefnum,“ segir Alexander.

Spurður hvernig hann ætli að greina sig frá samkeppninni segir Alexander að hann sjái tækifæri í að vera með dýpri greiningar og betri framsetningu.

„Í grunninn er verðmat mjög einfalt fyrirbæri og hver sem er getur útbúið það. Þú ert einungis að finna núvirði af sjóðstreymi félagsins. Það er ekkert virði fólgið í að búa til verðmat. Það er virði í því að skilja reksturinn og forsendurnar sem búa þar að baki. Að spá í spilin hvernig félagið muni þróast til framtíðar og hvaða breytur hafa áhrif á sjóðstreymið og þar af leiðandi virði félagsins,“ segir Alexander.

Hann segir að Íslendingar séu heilt yfir hæfir á mörgum sviðum en sérhæfinguna skortir. Þar sem afar fá félög séu í íslensku kauphöllinni sé það vandkvæðum bundið að öðlast sérhæfni.

„Ég ætla mér að fjalla meira um reksturinn en aðrir hafa gert og setja meiri vinnu í verðmatið en bara stilla upp sjóðstreymislíkani. Hugmyndin er að fjalla meira um forsendur á bak við verðmatið sem mér hefur fundist vanta auk þess að söguleg gögn og forsendur séu sett fram myndrænt,“ segir Alexander.

Spurður hvernig honum finnist verðlagningin á félögum í íslensku kauphöllinni vera svarar Alexander að hann sjái mikil tækifæri í mörgum félögum á markaði.

„Þau eru líkt og gefur að skilja mismikil en það eru klárlega mörg félög sem eru undirverðlögð. Ef fjárfestar eru að horfa til lengri tíma þá er góður tími til að kaupa,“ segir Alexander.

Arion banki undirverðlagður

Spurður í hvaða félögum hann sjái helst kauptækifæri á markaðnum segir Alexander að það félag sem komi fyrst upp í hugann sé Arion banki.

„Mér finnst Arion banki vera undirverðlagður miðað við hvað undirliggjandi rekstur bankans er sterkur. Það eru ýmsar ástæður sem búa þar að baki eins og að vextir hafa verið háir lengi, áhugi Íslendinga á fjárfestingum er ekki mikill og það eru hvatar fyrir fólk um þessar mundir að geyma peninga á bankabók vegna hárrar ávöxtunar á innlánsreikningum,“ segir Alexander.

Hann bendir á að tölur frá Seðlabankanum sýni að sparnaður heimila á innlánsreikningum er mikill.

„Ef skoðað er það sem heimilin eiga í sjóðum, í hlutfalli við innlán heimilanna, þá er það í sögulegri lægð. Innlánin eru að hrúgast upp meðan fjárfesting í sjóðum hefur staðið í stað. Ég tel að við eigum mikið inni þarna,“ segir Alexander og bætir við að þegar vextir halda áfram að lækka þá geti ruðningsáhrifin orðið mikil þegar þeir peningar sem nú eru á innlánsreikningum leita inn á markaðinn.

Greinin birtist í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK