Japönsku bílaframleiðendurnir Honda og Nissan samþykktu í dag að hefja samrunaviðræður. Ef til samruna kæmi yrði sameinað fyrirtæki þriðji stærsti bílaframleiðandi heims og myndi efla þróun þeirra á rafmagnsbílum og sjálfkeyrandi lausnum.
Nissan hefur undanfarið glímt við rekstrarvanda og þurfti í síðasta mánuði að segja upp þúsundum starfsmanna eftir að hagnaður fyrirtækisins lækkaði um 93% milli ára á fyrsta árshluta. Með samruna stefna fyrirtækin á að mæta samkeppnisáskorunum m.a. frá kínverskum bílaframleiðendum, frá Tesla og öðrum rafbílaframleiðendum.
Forstjóri Honda, Toshihiro Mibe, tók þó fram við fréttamenn í dag að mögulegur samruni væri ekki björgunarpakki fyrir Nissan. Sagði hann að ein forsenda samrunans væri viðsnúningur á rekstri Nissan.
Mikil samkeppni hefur verið á bifreiðamarkaði undanfarið, ekki síst fyrir erlenda framleiðendur í Kína, þar sem kínverski rafbílaframleiðandinn BYD hefur verið leiðandi. Hefur Kína tekið fram úr Japan sem helsta útflutningsland á bifreiðum, en stjórnvöld í Kína hafa stutt mikið við rafbílaþróun innanlands.
Þetta er ekki fyrsta skref japönsku bílaframleiðandanna í samstarfi, en í mars hófu þeir samstarf við þróun á hugbúnaði og öðrum búnaði fyrir rafbíla. Mitsubishi Motors, annar japanskur bílaframleiðandi, gekk inn í það samstarf í ágúst, en Nissan er meirihlutaeigandi í Mitsubishi.
Fréttirnar um samrunanna koma nú í kjölfar þess að taívanski tæknirisinn Foxconn reyndi án árangurs fyrr á þessu ári að eignast meirihluta í Nissan.
Framleiðendurnir horfa til þess að sameina rekstur sinn undir einu eignarhaldsfélagi sem yrði skráð í kauphöllina í Tókíó í Japan í ágúst árið 2026.
Japanskir miðlar greina frá því í dag að ef af samruna verði geti það þýtt að Nissan og Honda hefji að framleiða bifreiðar í verksmiðjum hvors annars og að það eigi að auka snerpu beggja fyrirtækja til að bregðast við markaðsaðstæðum hverju sinni.
Rekstur Nissan hefur verið nokkuð stormasamur undanfarinn áratug, en árið 2018 flúði þáverandi forstjóri félagsins, Carlos Ghosn, frá Japan falinn í kassa undir hljóðfæri. Komst hann úr landi í einkaflugvél og vakti flótti hans heimsathygli. Hafði hann verið sakaður um fjármálamisferli sem forstjóri og fyrir skattsvik.
Ghosn býr nú í Líbanon og sagði við blaðamenn í dag, í gegnum fjarfundabúnað, að með ákvörðun Nissan að snúa sér að höfuðandstæðingi sínum, Honda, væri ljóst að stjórnendur Nissan væru mjög stressaðir og sagðist hann ekki sjá gagnsemi samrunans fyrir Nissan.