Tvö rótgróin félög, Eimskip og Hampiðjan, duttu nýlega út af OMX 15-vístölunni og Heimar og Kaldalón komu í þeirra stað. Vísitalan samanstendur af 15 félögum sem skráð eru á aðallista kauphallarinnar og mælir bæði frammistöðu og viðskiptamagn félaga.
Eðlilega eru því reglulega breytingar á vísitölunni en við þessi tímamót vekur það eðlilega spurningar hvort rótgróin félög séu að víkja fyrir þeim.
Aðspurður segir Magnús Harðarson forstjóri Kauphallarinnar vísitöluna byggjast á mælikvörðum á markaðsvirði og veltu félaga. „Þetta veltur á staðlaðri markaðsaðferðafræði sem byggist bæði á markaðsvirði félaga og viðskiptum með félögin,“ segir Magnús í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir jafnframt að það sé eðlilegt að félög detti út úr vísitölunni og ýmsar ástæður geti legið þar að baki.
„Það geta verið margvíslegar ástæður. Til að mynda fer markaðsvirði félaga upp og niður eftir gengisþróun sem getur haft áhrif. Einnig sveiflast velta með félögin eftir atvikum, t.d. hversu mikið er að frétta af þeim og þess háttar. Það er algengt að á bilinu eitt til tvö félög fari inn og út úr vísitölunni í hverri endurskoðun,“ útskýrir Magnús.
Hann segist aðspurður vera býsna sáttur með gang mála í Kauphöllinni á þessu ári.
„Ég er nokkuð ánægður þrátt fyrir hátt vaxtaumhverfi. Þrátt fyrir það höfum við séð bæði nýskráningar og færslur frá First North-vaxtarmarkaðnum yfir á Aðalmarkaðinn og allgóð viðskipti. Viðskiptin slaga upp í það besta sem við höfum séð á síðustu 16 árum, þó að við náum ekki alveg toppnum í viðskiptamagninu,“ segir Magnús að lokum.