Aðstoða við landgræðslu í S-Arabíu

Loftslag Guðmundur Sigbergsson ásamt Eng. Malik Alharbi, aðstoðarframkvæmdastjóra stefnumótunar og …
Loftslag Guðmundur Sigbergsson ásamt Eng. Malik Alharbi, aðstoðarframkvæmdastjóra stefnumótunar og samstarfs Landgræðslustofnunarinnar.

Íslenska fyrirtækið International Carbon Registry (ICR), sem rekur alþjóðlegt vottunarkerfi og kolefnisskrá, skrifaði á dögunum undir samkomulag við Landgræðslustofnun Sádi-Arabíu um þróun og innleiðingu vottunarkerfis fyrir náttúrutengd verkefni. Skrifað var undir samkomulagið á COP16, ráðstefnu aðildarríkja rammasamnings um varnir gegn eyðimerkurmyndun, í Ríad í Sádi-Arabíu. Meðal helstu verkefna stofnunarinnar eru skógrækt, endurheimt og verndun fenjaskóga, landbætur, lífkolagerð og endurheimt vistkerfa eins og votlendis. Vottunarkerfið mun aðstoða landgræðslustofnunina við að halda utan um slík verkefni sem og gera betur grein fyrir þeim ávinningi sem af þeim verður, ýmist í formi bindingar kolefnis í lífmassa eða samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.

Sjálfbært konungsríki

Guðmundur Sigbergsson, stofnandi og framkvæmdastjóri ICR, segir í samtali við Morgunblaðið að um ákveðin tímamót sé að ræða fyrir loftslagsmál og alþjóðavæðingu kolefnismarkaða. „Loftslagsbreytingar hafa haft mikil áhrif í Sádi-Arabíu. Ungu kynslóðinni er verulega umhugað um að láta til sín taka og sú eldri vill skilja við sjálfbært konungsríki. Við njótum góðs af öflugu samstarfi við skógræktina og landgræðsluna á Íslandi. Þá þekkingu getum við nýtt í Sádi-Arabíu,“ segir Guðmundur.

Aðspurður segir Guðmundur að hann hafi upphaflega stofnað iCert árið 2018, vottunarstofu fyrir jafnlaunavottanir. „Við fengum svo fyrirspurnir um vottanir fyrir kolefnisjöfnun og ég fór að kynna mér þann markað. Í kjölfarið ræddi ég við félög í geiranum eins og Carbfix, Kolvið og Votlendissjóð um að færa vottunina upp á annað stig. Í kjölfarið stofnaði ég ICR þar sem skilvirkni kolefnismarkaða hefur verið mjög lítil og tækniþróun setið á hakanum. Nú er svo komið að við hjá ICR erum í samstarfi við 20 vottunarstofur sem tryggja að verkefni uppfylli skráningarkröfur og verkefnin eru á annað hundrað í yfir 30 löndum.“

Guðmundur líkir starfsemi ICR við skráningu verðbréfa í verðbréfamiðstöð. „Við erum ekki kauphöll og því er ekki hægt að eiga viðskipti með kolefniseiningar í gegnum okkur. Við sjáum bara um skráningarnar. Hins vegar gerir tæknin sem við nýtum það kleift að það er auðvelt fyrir kauphallir og markaðstorg að tengjast við skrána. T.d. vorum við að tengjast við Klappir nú á dögunum og erum með tengingar við fjölmörg erlend markaðstorg.“

ICR nýtir meðal annars bálkakeðjutækni til að tryggja rekjanleika og öryggi allra útgefinna eininga.

Fjölbreyttur hópur

Skráningarkerfið þjónar fjölbreyttum hópi notenda, þar á meðal fyrirtækjum, ríkisstjórnum, einstaklingum og samtökum. Guðmundur segir um verkefnið í Sádi-Arabíu að landgræðslustofnunin hafi boðið ICR í heimsókn síðasta sumar. „Við tókum þátt í vinnustofu um möguleikana í landinu en landið hefur verið að reyna að bregðast við aukinni eyðimerkurmyndun og gríðarlegum afleiðingum loftslagsbreytinga. Það var magnað að sjá hvaða lausnir er verið að þróa og sjá nýsköpunina í Sádi-Arabíu.“

Spurður hvernig ICR afli nýrra verkefna segir Guðmundur að þau hafi öll komið af afspurn og góðu orðspori ICR alþjóðlega. „En þetta er mjög lítill markaður þar sem allir þekkja alla.“ Níu manns vinna hjá ICR, þar af sjö á Íslandi.

Um næstu framtíð segir Guðmundur að hann eigi von á mikilli sprengingu í viðskiptum með kolefniseiningar á næsta ári, 2025, sérstaklega í ljósi þess að lokið hafi verið við sk. 6. grein Parísarsamningsins á COP29 í Bakú sem formfestir alþjóðamarkaði með kolefniseiningar og samstarf þjóða við að ná markmiðum samningsins. „Það þýðir að vaxtarmöguleikar okkar eru miklir. Þetta getur verið fljótt að skalast upp,“ segir Guðmundur að lokum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK