Hugbúnaðarfyrirtækið Fons Juris, sem hefur um árabil rekið rafrænt dóma- og lögfræðisafn, kynnti fyrr á árinu til sögunnar gervigreind undir nafninu Lögmennið.
Að sögn eigenda Fons Juris, lögfræðinganna Einars Sigurbergssonar og Sævars Guðmundssonar, gerir Lögmennið notendum kleift að „spjalla“ við dóma og tímaritsgreinar með skilvirkum hætti, eins og þeir kjósa að kalla gagnavinnsluna.
„Notendur geta beðið Lögmennið að lesa texta úr gagnasafni Fons Juris og svara svo spurningum úr textanum. Það getur til dæmis reifað textann í stuttu máli og útbúið gögn úr honum, t.d. ef lögmaður er að vinna með úrskurð Persónuverndar um tiltekið álitamál getur hann beðið Lögmennið að búa til tölvupóst til viðskiptavinar sem greinir niðurstöðu úrskurðarins,“ útskýrir Einar í samtali við Morgunblaðið.
Sævar segir gervigreindina ekki bara létta vinnu lögmanna, heldur einnig laganema við nám og próflestur, með því að reifa dóma með tilliti til ákveðinnar lagareglu sem kemur fram í dómunum.
„Í staðinn fyrir að þurfa að lesa yfir mjög langan dóm er hægt með þessari gervigreind að fá að vita á augabragði hvernig dómurinn reynir á það ágreiningsefni sem notandinn er skoða hverju sinni. Til að mynda hverjar voru málsástæður sóknaraðila, úrslit málsins eða hvaða lagareglur giltu um álitaefnin og margt fleira,“ segir Sævar.
Einar segir að gervigreindin sé tengd við allar tímaritsgreinar, dóma og úrskurði frá upphafi sem eru í gagnagrunni Fons Juris.
„Hún getur svarað spurningum um dóma frá árinu 1920 til dagsins í dag. Einnig getur Lögmennið svarað spurningum úr öllum tímaritsgreinum um lögfræði, t.d. í Úlfljóti og Tímariti lögfræðinga,“ segir Einar.
Sævar segir þrátt fyrir að gervigreindin geti annast almenna rannsóknarvinnu fyrir lögmenn, með því að leita af ákveðnum efnisatriðum í dómum, mun þróun hennar enn vera á byrjunarstigum.
Sævar segir aðspurður að gervigreindin komi ekki til með að ganga í störf lögmanna, heldur ætti að hugsa það sem öflugt verkfæri í ýmiskonar skjalagerð og sem nánast löglærðan aðstoðarmann.
„Gervigreindin getur verið gott verkfæri fyrir lögmenn og lögfræðinga í allskonar undirbúningsvinnu, en hún mun aldrei ganga í störf þeirra, þar sem mannlegi þátturinn er gríðarlega mikilvægur,” segir Sævar.
Einar segir Lögmennið geti annast alla einfalda undirbúningsvinnu og skjalagerð og umfram allt gert vinnu þeirra mun skilvirkari. „Lausnin getur flýtt fyrir og einfaldað rannsóknarvinnu og skjalagerð hjá lögmönnum, svo þeir hafi meiri tíma til að leysa það sem skiptir mestu máli, sem eru ágreiningsefnin,” bendir Einar á.
Aðspurður segir Sævar að helsta ógn sem lögmönnum gæti stafað af framþróun gervigreindarinnar, sé að hún gæti að vissu leiti gengið í störf fulltrúa á lögmannsstofum, sem iðulega annast skjalagerð og undirbúningsvinnu áður en mál eru flutt fyrir dómstólum.
„Þegar þessi bylting nær alvöru skriðþunga gætu lögmenn verið með sinn fulltrúa í formi gervigreindar, sem myndi sjáum ýmiskonar rannsóknar- og undirbúningsvinnu, til dæmis með því leita af gera minnisblað eða leita að ákveðnum dómi, úrskurði, lagareglu eða tímaritsgrein,” segir Sævar.
Einar telur að gervigreind af slíku tagi muni framtíðinni einnig gagnast almenningi við að fá svör við einföldum spurningum innan lögfræðinnar.
„Þetta gæti aukið aðgengi almennings að réttarheimildum og veitt einföld og skýr svör við ágreiningsefnum sem það er að eiga við sjálft,” segir Einar að lokum.