Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, réðst í húsleit hjá Lyfjum og heilsu í október á síðasta ári. Lyf og heilsa, sem er í söluferli, er í eigu Jóns Hilmar Karlssonar í gegnum Toska ehf og Fastar ehf. Áður hafði komið fram að ESA hefði ráðist í húsleit hjá fjárfestingarfélaginu Skel, en félagið fer með 81% hlut í Lyfjavali.
Var þetta í fyrsta skipti sem slík aðgerð var framkvæmd á Íslandi.
Félögin tvö hafa kært aðgerð ESA til EFTA-dómstólsins, en af gögnum málsins má ráða að athugun ESA varði meint samráð fyrirtækjanna tveggja tengt eignaskiptasamningi þeirra í milli sem varðar tvö verslunarpláss.
Nánar tiltekið varði meint brot við 53. grein EES-samningsins sem bannar alla samninga milli fyrirtækja, ákvarðanir samtaka fyrirtækja og samstilltar aðgerðir sem geta haft áhrif á viðskipti milli EFTA- og Evrópusambandsríkja auk þess að hafa að markmiði eða af þeim leiði samkeppnishindranir eða röskun.
Eftir því sem næst verður komist snýr málið að samningum fyrirtækjanna sem fela í sér meinta markaðsskiptingu verslana í tveimur verslunarkjörnum, Mjódd og Glæsibæ. Apótekarinn, sem er hluti af Lyfjum og heilsu, rekur í dag verslun í Mjódd, hvar Lyfjaval var áður til húsa, en Lyfjaval rekur verslun í Glæsibæ, hvar Apótekarinn var áður til húsa.
Áður hafði Skel, sem er skráð fyrirtæki á markaði, birt tilkynningu um að Lyfjaval væri grunað um markaðsskiptingu með því að loka hefðbundnu apóteki í Mjódd og einbeita sér að því að starfrækja bílalúguapótek. Var þar með aðeins hálf sagan sögð.
Í kæru Skeljar er vísað til þess að téður eignaskiptasamningur samanstandi af áður tilkynntum og samþykktum samningum er lúta að fyrrgreindum verslunarkjörnum, í samræmi við íslensk samkeppnislög.
Í kæru Lyfja og heilsu segir að ESA hafi ekki haft grundvöll til þess að taka ákvörðun um húsleitina, enda hafi meint brot ekki getað haft áhrif á viðskipti milli samningsaðila í skilningi 53. greinarinnar.